Handbolti

Tvö hæfi­leika­búnt í Ís­lendinga­bæinn Kristian­stad

Sindri Sverrisson skrifar
Andri Erlingsson og Baldur Fritz Bjarnason halda til Kristianstad í sumar.
Andri Erlingsson og Baldur Fritz Bjarnason halda til Kristianstad í sumar. Samsett/ÍBV/ÍR

Nú þegar straumur Íslendinga er í áttina frá Kristianstad, eftir fullkomið gengi íslenska landsliðsins á EM þar í bæ sem vonandi heldur áfram í Malmö, hafa tveir íslenskir leikmenn samið við handknattleiksfélag bæjarins.

ÍR-ingurinn Baldur Fritz Bjarnason og Eyjamaðurinn Andri Erlingsson hafa nú báðir samið um að ganga í raðir Kristianstad næsta sumar og gildir samningur Bjarna til tveggja ára en samningur Andra til þriggja ára.

Um er að ræða tvo af hæfileikaríkustu leikmönnum Olís-deildarinnar en Baldur varð til að mynda markahæstur í deildinni á síðustu leiktíð og Andri hefur verið fyrirliði U19-landsliðsins, þar sem þeir Baldur hafa spilað.

Þar með verða þrír Íslendingar í liði Kristianstad því Einar Bragi Aðalsteinsson kom til félagsins frá FH árið 2024 og skrifaði undir nýjan samning á dögunum sem gildir til sumarsins 2027. Um þetta tilkynnti hann sjálfur uppi á sviði á stuðningsmannasvæðinu í Kristianstad Arena, þar sem Íslendingar hafa verið svo fjölmennir vegna EM.

Fleiri Íslendingar hafa slegið í gegn með handboltaliði Kristianstad í gegnum árin sem og með kvennaliði Kristianstad í fótbolta og óhætt að tala um ákveðna Íslendinganýlendu í þessum efnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×