Erlent

Fæðingum fækkaði um 1,62 milljónir milli ára

Samúel Karl Ólason skrifar
Fæddum börnum fækkar ár eftir ár í Kína.
Fæddum börnum fækkar ár eftir ár í Kína. AP/Andy Wong

Í Kína fæddust 7,92 milljónir barna í fyrra. Það er 1,62 milljónum færri börn en fæddust árið 2024 og markar það um sautján prósenta fækkun. Samkvæmt opinberum tölum í Kína hefur fæddum börnum fækkað á hverju ári mörg ár í röð.

Í heildina voru Kínverjar 1,404 milljarðar í fyrra en þeim fækkað um þrjár milljónir og hefur fækkað í fjögur ár í röð.

Áratugur er liðinn síðan Kommúnistastjórn Kína felldi úr gildi stefnuna um eitt barn á hverja fjölskyldu en hún var í gildi frá 1979 til 2015. Þá máttu fjölskyldur eignast tvö börn en árið 2021 var hámarkið hækkað í þrjú börn á fjölskyldu.

Síðan þá hafa yfirvöld gripið til ýmissa ráða til að reyna að fá fjölskyldur til að eignast fleiri börn, eins og til dæmis að auka fjárhagsstuðning og leggja skatt á smokka.

Þrátt fyrir það hefur fæðingartíðni ekki aukist en á síðasta ári fæddust 5,63 börn á hverja þúsund íbúa og hefur sú tíðni ekki verið eins lág síðan mælingar hófust, árið 1949, samkvæmt AP fréttaveitunni.

Fréttaveitan segir að flestar fjölskyldur vísi til þess að kostnaður sé of hár og álagið of mikið í kínversku samfélagi, þegar kemur að helstu ástæðum þess að fólk eignast ekki fleiri börn. Nú hefur dregið úr kaupmætti heimila í Kína á undanförnum árum.

Sífellt eldri þjóð

Yfirvöld í Kína gáfu síðast út tölfræði um börn á konur árið 2020 og var hlutfallið þá 1,3 barn á hverja konu. AP segir að sérfræðingar áætli að hlutfallið sé komið í um einn. Til að viðhalda íbúafjölda þarf hlutfallið að vera í 2,1.

Um 323 milljónir Kínverja eru eldri en sextíu ára en það samsvarar um 23 prósentum af allri þjóðinni. Fjöldinn hefur aukist töluvert á undanförnum árum og er búist við því að sú þróun muni halda áfram.

Á sama tíma eru ráðamenn í Kína að reyna að snúa hagkerfi Kína frá því að keyra á framleiðslu yfir í það að snúa enn frekar að neyslu og framleiðslu á hátæknivörum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×