Viðskipti innlent

Heiðar kjörinn stjórnar­for­maður Ís­lands­banka

Árni Sæberg skrifar
Heiðar Guðjónsson er nýr stjórnarformaður Íslandsbanka.
Heiðar Guðjónsson er nýr stjórnarformaður Íslandsbanka. Vísir/Árni

Heiðar Guðjónsson hefur verið kjörinn stjórnarformaður Íslandsbanka. Tilnefninganefnd bankans tilnefndi hann sem stjórnarformann en hann leiddi hóp fjárfesta í bankanum sem fóru fram á að hluthafafundur yrði haldinn. Enginn annar gaf kost á sér og því var Heiðar sjálfkjörinn.

Þetta var niðurstaða hluthafafundar Íslandsbanka, sem hófst klukkan 16 á Hilton Reykjavík Nordica.

Á dagskrá fundarins voru ávarp stjórnarformanns, kosning stjórnar, varastjórnar bankans og formanns stjórnar og önnur mál.

Tvö ný í stjórn

Tilnefningarnefnd bankans tilnefndi eftirfarandi í stjórn bankans þann 14. janúar:

  • Haukur Örn Birgisson
  • Heiðar Guðjónsson
  • Helga Hlín Hákonardóttir
  • Margrét Pétursdóttir
  • Stefán Pétursson
  • Stefán Sigurðsson
  • Valgerður Hrund Skúladóttir

„Tilnefningarnefnd leggur jafnframt til að Heiðar Guðjónsson verði kjörinn formaður stjórnar,“ sagði í tilkynningu nefndarinnar.

Tilnefningarnefndin lagði þannig til að Heiðar og Margrét kæmu ný inn í stjórnina fyrir þau Lindu Jónsdóttur, fráfarandi stjórnarformann, og Agnar Tómas Möller. Linda greindi frá því nýverið að hún myndi ekki sækjast eftir endurkjöri í stjórn.

Enginn gaf kost á sér til stjórnarsetu fyrir utan þau sem tilnefnd voru og stjórnin var því sjálfkjörin.

Herdís Gunnarsdóttir og Magnús E. Björnsson voru sjálfkjörin í varastjórn bankans.

„Hvaða sirkus er þetta?“

Heiðar Guðjónsson fjárfestir staðfesti á dögunum háværan orðróm um að hann stefndi á framboð til stjórnar Íslandsbanka. Hann sagðist hafa fundist vanta tilfinnanlega rödd hluthafa inn í stjórn bankans og tók sem dæmi síðasta hluthafafund, þar sem aðeins einn hluthafi tók til máls. „Hvaða sirkus er þetta?“ sagðist hann hafa spurt sig á fundinum.

Greint var frá því þann 8. desember að hópur hluthafa í Íslandsbanka hefði krafist hluthafafundar og stjórnarkjörs í krafti rúmlega fimm prósenta eignarhlutar í bankanum.

Daginn eftir greindi Innherji frá því að Heiðar færi fyrir hópnum og að hann freistaði þess að komast í stjórn bankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×