Fótbolti

Lík­legra að Vinícius Jr. fram­lengi við Real Madrid eftir brott­för Xabi Alonso

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vinicius Jr. var allt annað en sáttur við að vera margoft tekinn af velli í leikjum Real Madrid undir stjórn Xabi Alonso.
Vinicius Jr. var allt annað en sáttur við að vera margoft tekinn af velli í leikjum Real Madrid undir stjórn Xabi Alonso. Getty/Guille Martinez

Brotthvarf Xabi Alonso sem þjálfara spænska stórliðsins Real Madrid hefur breytt stöðunni varðandi hugsanlega endurnýjun samnings Brasilíumannsins Vinícius Júnior en Alonso var talinn ein helsta hindrunin í vegi fyrir nýjum samningi.

Núverandi samningur stjörnuframherjans Vinícius við Madrid rennur út í júní 2027 og hafa samningaviðræður verið í biðstöðu síðan í maí síðastliðnum.

Alonso yfirgaf félagið á mánudag og Álvaro Arbeloa tók við af honum eftir margra mánaða óróa sem náði hámarki með tapi Madrid gegn Barcelona í úrslitaleik spænska ofurbikarsins um síðustu helgi.

Heimildarfólk ESPN segir að möguleikinn á endurnýjun hafi verið talinn „enginn“ ef Alonso hefði haldið áfram sem þjálfari.

Nýi þjálfarinn Arbeloa hefur hrósað Vinícius og fagnað vilja hans til að spila – á meðan aðrir lykilmenn voru hvíldir – í tapi í Konungsbikarnum gegn Albacete á miðvikudag.

Hins vegar, þrátt fyrir brotthvarf Alonso, er önnur veruleg hindrun í vegi fyrir nýjum samningi. Munurinn á launapakkanum sem Brasilíumaðurinn krefst og því sem félagið er tilbúið að bjóða er enn talinn umtalsverður.

Vinícius þénar nú um sautján milljónir evra (2,5 milljarða króna) á ári.

Heimildir sögðu ESPN að á síðustu fundum sem haldnir voru í maí 2025 hafi Madrid boðið leikmanninum tuttugu milljónir evra. Samningaviðræður stöðvuðust eftir það, þar sem Vinícius krafðist tíu milljóna evra til viðbótar í bónusgreiðslur til að undirrita samninginn.

ESPN hefur áður greint frá því að þeir sem standa Vinícius nærri hafi talið að samningaviðræður myndu ekki hefjast aftur fyrr en eftir HM 2026 í sumar, sem þýddi að hann færi inn á síðasta ár núverandi samnings síns. Hins vegar hefur brotthvarf Xabi Alonso breytt stöðunni, að sögn heimildarmanna, og er nú búist við því að LaLiga-félagið muni reyna að hefja viðræður að nýju.

Vinícius var óumdeildur byrjunarliðsmaður hjá forvera Alonso, Carlo Ancelotti, en samband hans við Alonso var stirt strax í upphafi stjórnartíðar hans síðasta sumar. Vinícius spilaði 33 leiki undir stjórn Alonso en kláraði aðeins níu, og í fjórum þeirra kom hann inn á sem varamaður.

Eftir að þjálfarinn var rekinn var Vinícius einn af fáum leikmönnum í hópnum sem ekki birti kveðjuskilaboð á samfélagsmiðlum. Framherjinn hefur annars átt erfitt uppdráttar á þessu tímabili, með sex mörk og sjö stoðsendingar fyrir félagið sitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×