Fótbolti

Sláandi mynd af þjálfurum þriggja stærstu spænsku fé­laganna frá 2011

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diego Simeone tók við liði Atletico de Madrid þegar hann var nýorðinn fertugur en núna er hann að verða 56 ára í apríl.
Diego Simeone tók við liði Atletico de Madrid þegar hann var nýorðinn fertugur en núna er hann að verða 56 ára í apríl. Getty/Angel Martinez

Barcelona, Real Madrid og Atletico Madrid eru þrjú stærstu félögin á Spáni en eitt þeirra sker sig út þegar kemur að þjálfaramálum.

Real Madrid var enn á ný að skipta um þjálfara í vikunni þegar Álvaro Arbeloa tók við liðinu af Xabi Alonso en sá síðarnefndi hafði verið aðeins með liðið í hálft ár. Arbeloa byrjaði síðan á því að tapa í bikarnum í fyrsta leik.

Barcelona hefur líka farið í gegnum marga þjálfara síðustu ár síðan að Pep Guardiola hætti óvænt með liðið á toppnum.

Hjá Atletico Madrid er allt annað dæmi í gangi. Þar hefur verið sami þjálfari í fimmtán ár og hann heitir Diego Simeone.

Simeone var ráðinn í desember 2011, nánar tilgetið á Þorláksmessu. Hann tók við liðinu af Gregorio Manzano sem var rekinn daginn áður eftir bikartap á móti C-deildarliði.

Simeone endaði á því að vinna Evrópudeildina á sínu fyrsta tímabili en liðið hefur síðan tvisvar orðið spænskur meistari, einu sinni bikarmeistari, vann Evrópudeildina í annað skiptið 2018 og hefur tvisvar komist í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.

Simeone hefur nú stýrt liðinu í 767 leikjum og unnið 455 þeirra. Hann er með 59 prósent sigurhlutfall.

Sky Sports setti saman sláandi mynd af þjálfurum þriggja stærstu spænsku félaganna frá árinu 2011 sem má sjá hér fyrir neðan. Á meðan Real Madrid hefur farið í gegnum átta þjálfara og Barcelona í gegnum tíu þá hefur aðeins einn maður stýrt liði Atletico Madrid.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×