Enski boltinn

Bradley frá út tíma­bilið | Fer Liverpool á markaðinn?

Valur Páll Eiríksson skrifar
Conor Bradley berst við Gabriel Martinelli á fimmtudag. Skömmu síðar steig hann illa niður og er af þeim sökum frá út leiktíðina.
Conor Bradley berst við Gabriel Martinelli á fimmtudag. Skömmu síðar steig hann illa niður og er af þeim sökum frá út leiktíðina. Getty/John Walton

Kostum fækkar í varnarlínu Liverpool á Englandi. Conor Bradley mun ekki spila meira á leiktíðinni eftir að hafa meiðst gegn Arsenal á fimmtudaginn var.

Bradley steig illa niður undir lok leiksins á fimmtudagskvöld sem lauk með markalausu jafntefli. Hann sneri upp á hnéð sem var illa farið. Óttast var um slit á krossbandi en eftir myndatöku er ljóst að bandið er heilt.

Aftur á móti eru bæði bein og liðbönd alvarlega sködduð eftir atvikið og ljóst að Bradley þarf að gangast undir aðgerð á vinstra hné vegna þess. Af þeim sökum er leiktíð hans lokið og mun hann ekki snúa aftur á fótboltavöllinn fyrr en í sumar.

Um er að ræða mikið högg fyrir Liverpool sem hefur treyst rækilega á Bradley það sem af er vetri, í fjarveru Jeremie Frimpong, sem hefur verið mikið meiddur. Kostum í hægri bakvarðarstöðu liðsins fækkar.

Frimpong hefur leikið töluvert á hægri kanti fremur en í bakverði eftir að hafa jafnað sig á sínum meiðslum en hann stendur eftir sem eini heili bakvörðurinn hjá Liverpool. Joe Gomez getur leyst stöðu hægri bakvarðar, og hefur gert í vetur, en Gomez er að sama skapi eina varaskeifan í miðvarðarstöðunni - þar sem Ibrahima Konaté og Virgil van Dijk eiga byrjunarliðssætin.

Kostirnir til að manna þessar þrjár stöður, miðvarðarstöðurnar og hægri bakvörð, eru því orðnir fjórir talsins þegar Liverpool á helling eftir af tímabilinu. Áhugavert verður að sjá hvort félagið stígi inn á markaðinn en fátt hefur bent til þess að stjórarmenn félagsins hyggist styrkja varnarlínuna það sem af er janúar.

Liverpool hefur gengið illa í titilvörn sinni og situr í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 35 stig eftir 21 leik, 14 stigum frá toppliði Arsenal. Liverpool hefur fengið á sig 28 mörk í deildinni, tvöfalt fleiri en toppliðið.

Liverpool mætir Barnsley í ensku bikarkeppninni á Anfield klukkan 19:45 annað kvöld. Leikurinn verður sýndur beint á Sýn Sport Viaplay.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×