Innlent

Ekki komið til héraðssaksóknara

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Fólkið fannst látið á Edition hótelinu.
Fólkið fannst látið á Edition hótelinu. Vísir/Anton Brink

Mál franskrar konu sem grunuð er um að hafa banað eiginmanni sínum og dóttur á Edition-hótelinu í miðborg Reykjavíkur í júní á síðasta ári er ekki enn komið á borð héraðssaksóknara.

Fréttin uppfærð klukkan 13:04:

Í upprunalegri frétt var haft eftir Ríkisútvarpinu að málið væri komið á borð héraðssaksóknara. Ríkisútvarpið hafði það eftir E. Agnesi Kristínardóttur,  yfirlögregluþjóni miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Um rangar upplýsingar var að ræða. 

Þetta staðfestir lögregla við Ríkisútvarpið. Líkt og komið hefur fram gengur konan laus en er í farbanni hér á landi og er það í gildi til 27. febrúar næstkomandi. Þarf konan að tilkynna sig nokkrum sinnum í viku á lögreglustöð og er hún yfirheyrð nokkuð reglulega af lögreglu. Konan og fjölskylda hennar eru frönsk en voru búsett á Írlandi.

Konan var handtekin laugardaginn 14. júní eftir að starfsmaður Edition hótelsins í Reykjavík kom að henni særðri á hótelherbergi fjölskyldunnar. Eiginmaður hennar og dóttir voru úrskurðuð látin á vettvangi.

Fram hefur komið að lögreglan á Írlandi hafi ráðist í húsleit þar í landi að beiðni kollega sinna á Íslandi og munir sem fundust við leitina komnir til landsins. Lögreglan hér á landi hefur tekið við gögnum erlendis frá.

Konan var úrskurðuð í gæsluvarðhald þann 15. júní og sat í því í rúmar fjórtán vikur, til 24. september. Hámarkstími gæsluvarðhalds er tólf vikur, nema mál hafi verið höfðað gegn sakborningi eða brýnir rannsóknarhagsmunir krefjist þess.

Fréttin hefur verið uppfærð. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×