Lífið

Fannst látinn á fjöllum degi eftir af­mælis­daginn

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Andrew Ure fór í fjallgöngu á gamlársdag en sneri ekki heim aftur.
Andrew Ure fór í fjallgöngu á gamlársdag en sneri ekki heim aftur.

Skoski söngvarinn og verslunareigandinn Andrew Ure fannst látinn á fjallinu Ben Vane, daginn eftir afmælisdag sinn, eftir að hafa lagt einn af stað í fjallgöngu á gamlársdag til að prófa nýjan klifurbúnað.

Ure fagnaði 41 árs afmæli sínu 30. desember síðastliðinn og lagði af stað morguninn eftir í fjallgöngu upp á fjallið Ben Vane í Arrochar-ölpunum skammt frá Loch Lomond. Þegar hann skilaði sér ekki heim í kjölfarið voru björgunarsveitir kallaðar út og fannst hann látinn skömmu fyrir miðnætti á gamlársdag 2025. Ekki hefur verið greint frá því hver dánarorsök hans var.

Andrew var fyrirferðarmikill í skosku menningarlífi í nærsamfélagi sínu, stofnaði tónlistarhátíðina Vibration Festival sem breyttist svo í Falkirk Fest, rak verslunina The Wee Whisky Shop í Linlithgow og var söngvari hljómsveitarinnar The Ray Summers, sem höfðu hitað upp fyrir ýmsar stærri sveitir.

„Á afmælinu þínu vildirðu horfa á stjörnurnar með mér. Ekki vissi ég þá að degi síðar yrðirðu ein af þessum stjörnum. Þú varst leiðarljósið mitt og stærsta stjarnan af öllum,“ skrifaði ekkja hans, Linsey Waddell, á Facebook.

Hjónin Linsey Waddell og Andrew Ure áður en hann lést.

Fjöldi fólks hefur minnst Ure á samfélagsmiðlum, þar á meðal bróðir hans, David Ure.

„Á Hogmanay [gamlárskvöld] var Andy gríðarspenntur fyrir því hvað væri í vændum fyrir okkur 2026 en fyrst af öllu fyrir því að fara í fjallgöngu í nýja afmælisbúnaðinum. Því miður, sneri hann ekki heim aftur,“ sagði bróðirinn sem þakkaði björgunarsveitum sérstaklega fyrir hjálpina.

„Ég hef misst litla bróður minn, besta vin minn, viðskiptafélaga, málpípu mína og ástæðuna fyrir því að ég notaði símann minn daglega,“ skrifaði hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.