Fótbolti

„Hann sér fram­tíðina fyrir sér hjá Napoli“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Rasmus Hojlund hefur notið góðs af skiptunum til Napoli eftir slæmt gengi hjá Manchester United. 
Rasmus Hojlund hefur notið góðs af skiptunum til Napoli eftir slæmt gengi hjá Manchester United.  EPA/CESARE ABBATE

Yfirmaður íþróttamála hjá Napoli hrósar danska framherjanum Rasmus Højlund í hástert og reiknar með að festa á honum kaup næsta sumar.

„Við gerðum allt til þess að fá hann [að láni frá Manchester United], önnur félög höfðu áhuga en hann vildi koma hingað og við erum stolt af því“ sagði Giovanni Manna við ítalska miðilinn Correire dello Sport.

Síðan Højlund gekk til liðs við Ítalíumeistara Napoli í sumar hefur hann skorað níu mörk í tuttugu leikjum og orðið Ofurbikarmeistari.

Hann skoraði tvennu gegn Cremonese síðasta leiknum fyrir áramót og kom liðinu upp í annað sæti ítölsku deildarinnar.

„Við höfum möguleika á því að kaupa og skyldu til að kaupa hann ef við komumst í Meistaradeildina“ sagði yfirmaðurinn Giovanni Manna einnig.

„Hann sér framtíðina fyrir sér hjá Napoli og okkur líður eins. Það er mjög mikilvægt, og í raun bara formsatriði, að ganga frá þessum kaupum“ sagði hann svo að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×