Fótbolti

Hættir ekki fyrr en hann skorar þúsund mörk

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Cristiano Ronaldo er markahæstur í sádi-arabísku úrvalsdeildinni ásamt samherja sínum og landa, Joao Félix. Þeir hafa báðir skorað tólf mörk.
Cristiano Ronaldo er markahæstur í sádi-arabísku úrvalsdeildinni ásamt samherja sínum og landa, Joao Félix. Þeir hafa báðir skorað tólf mörk. getty/Abdullah Ahmed

Þrátt fyrir að vera orðinn fertugur er engan bilbug á Cristiano Ronaldo að finna. Hann ætlar sér að ná stórum áfanga áður en hann leggur skóna á hilluna.

Ronaldo skoraði tvívegis þegar Al-Nassr sigraði Al Akhdoud, 3-0, í sádi-arabísku úrvalsdeildinni á laugardaginn. Hann hefur nú skorað 956 mörk á ferlinum og ætlar ekki að hætta fyrr en hann skorar þúsund mörk.

„Það er erfitt að halda áfram að spila en hvatningin er til staðar. Ástríðan er enn mikil og ég vil halda áfram. Það skiptir ekki máli hvar ég spila, hvort sem það er í Miðausturlöndum eða Evrópu. Ég nýt þess alltaf að spila fótbolta,“ sagði Ronaldo eftir að hann tók við viðurkenningu sem besti leikmaður Miðausturlanda á Globe Soccer-verðlaunahátíðinni í Dúbaí í gær.

„Þið vitið hvert markmið mitt er. Ég vil vinna titla og ná þessari tölu sem þið vitið öll um. Ef ég meiðist ekki næ ég því pottþétt.“

Ronaldo og félagar í Al-Nassr eru með fjögurra stiga forskot á toppi sádi-arabísku úrvalsdeildarinnar. Portúgalinn hefur leikið með Al-Nassr frá því í ársbyrjun 2023.

Ronaldo er markahæsti landsliðsmaður allra tíma en hann hefur skorað 143 mörk fyrir portúgalska landsliðið. Hann er einnig markahæstur í sögu Real Madrid með 450 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×