Íslenski boltinn

Elías mættur til meistaranna

Sindri Sverrisson skrifar
Elías Már Ómarsson er mættur í Víkina.
Elías Már Ómarsson er mættur í Víkina. Víkingur

Íslandsmeistarar Víkings fengu risastóran jólapakka í dag því þeir hafa samið við sóknarmanninn Elías Má Ómarsson og gildir samningurinn til næstu þriggja ára.

Elías er því mættur heim til Íslands eftir langan feril í atvinnumennsku en hann lék síðast í Kína, eftir að hafa áður spilað í Hollandi, Frakklandi og fleiri löndum.

Elías hefur verið eftirsóttur eftir að ljóst var að hann gæti verið á heimleið. Hann lék síðast með Meizhou Hakka í Kína og skoraði þar fjögur mörk og lagði upp tvö í fjórtán leikjum, áður en liðið féll úr efstu deild.

Elías hóf feril sinn með Keflavík en fór ungur í atvinnumennsku til Vålerenga í Noregi og lék svo með Gautaborg í Svíþjóð. Hann raðaði svo inn mörkum fyrir Excelsior í Hollandi, þar sem hann lék bæði í efstu og næstefstu deild, og lék svo með Nimes í næstefstu deild Frakklands og loks NAC Breda í Hollandi áður en hann fór til Kína í sumar.

Alls hefur hann spilað 399 leiki með félagsliðum, skorað 131 mark og átt 26 stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×