Körfubolti

Segir að Kefl­víkingar hafi ekki þolað gott um­tal

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Keflvíkingar töpuðu með sannfærandi hætti fyrir Valsmönnum.
Keflvíkingar töpuðu með sannfærandi hætti fyrir Valsmönnum. vísir/anton

Benedikt Guðmundsson grunar að jákvætt umtal hafi stigið liði Keflavíkur til höfuðs.

Keflavík tapaði með tuttugu stiga mun fyrir Val, 111-91, í Bónus deild karla á fimmtudaginn.

Keflvíkingar hafa átt fínt tímabil en gengið illa gegn sterkustu liðum deildarinnar.

„Þeir vilja vinna þessa stóru leiki, toppslagi og eru búnir að tapa þessum leikjum gegn liðunum sem eru fyrir ofan,“ sagði Benedikt í Bónus Körfuboltakvöldi.

Klippa: Bónus Körfuboltakvöld - umtalið steig Keflavík til höfuðs

Hann kveðst nokkuð viss um að Keflvíkingar hafi ekki þolað gott umtal síðustu vikna.

„Ég er búinn að hugsa þetta með Keflavík. Mér finnst þetta vera klofinn persónuleiki. Ég held pottþétt að fyrir þennan leik hafi hæpið náð inn í liðið. Þetta gerist ansi oft og ótrúlega oft þegar lið fá þvílíka umfjöllun og það er verið að hrósa þeim. Þetta getur náð til liða og þau ná ekki lifa undir svona lofi,“ sagði Benedikt.

Ekki tilbúinn með gæðastimpilinn

Hann segir að Keflvíkingar eigi töluvert í land þegar kemur að varnarleiknum, sérstaklega utan Sláturhússins.

„Keflavík á heimavelli er gott varnarlið. Keflavík á útivelli - þú minntist á að Valur skorar alltaf hundrað stig á þá í Valsheimilinu - og það eru fleiri lið. Þeir fá 22 stigum meira á sig á útivelli en heimavelli. Ég er ekki tilbúinn að setja gæðastimpilinn á að þeir séu frábært varnarlið því þú verður að geta gert þetta bæði heima og úti,“ sagði Benedikt.

„Auðvitað færðu alltaf á þig fleiri stig úti en það er alltof mikill munur þarna á.“

Halldór Garðar Hermannsson og félagar í Keflavík taka á móti grönnum sínum í Njarðvík á fimmtudaginn.vísir/anton

Benedikt kvaðst einnig hafa áhyggjur af því hver yrði aðalkarlinn í sóknarleik Keflavíkur þegar fer að vora og leikirnir verða stærri.

Keflavík er í 4. sæti deildarinnar með fjórtán stig. Tólf af þessum stigum hafa komið á heimavelli.

Innslagið úr Bónus Körfuboltakvöldi má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×