Körfubolti

KR, Aþena og Tinda­stóll örugg­lega á­fram í bikarnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rebekka Rut Steingrímsdóttir og félagar í KR áttu ekki í miklum vandræðum með Hólmara í dag.
Rebekka Rut Steingrímsdóttir og félagar í KR áttu ekki í miklum vandræðum með Hólmara í dag. Vísir/Hulda Margrét

Tindastóll, Aþena og KR tryggðu sér bæði sæti í átta liða úrslitum VÍS-bikars kvenna í körfubolta í kvöld en bæði unnu þau 1. deildarlið.

Tindastóll vann tíu stiga sigur á nágrönnum sínum í Þór Ak en KR vann 34 stiga sigur á Snæfelli. Aþena vann öruggan sigur í einvígi tveggja 1. deildarliða.

Tindastóll vann Þór Akureyri 102-92 eftir að hafa verið fimmtán stigum yfir í hálfleik, 55-40. Stólarnir voru skrefinu á undan allan leikinn en Þórsararnir gáfust ekki upp og héldu sér inn í leiknum allt til leiksloka.

Hin spænska Marta Hermida var frábær með 38 stig og 10 stoðsendingar en Alejandra Martinez skoraði 15 stig og Oceane Kounkou var með 14 stig. Chloe Wilson skoraði 28 stig fyrir Þór og Emma Karólína Snæbjarnardóttir var með 20 stig.

KR vann Snæfell 83-49 eftir að hafa verið sextán stigum yfir í hálfleik, 37-21.

Anna María Magnúsdóttir skoraði 15 stig fyrir KR og þær Eve Braslis og Molly Kaiser voru báðar með 14 stig. Valdís Helga Alexandersdóttir skoraði 18 stig fyrir Snæfell.

1. deildarlið Aþenu er líka komið áfram eftir 118-62 sigur á Selfossi. Andrea Jovicevic var með 27 stig og 12 fráköst en Jada Smith skoraði 21 stig. Þær Katarzyna Trzeciak og Darina Khomenska voru síðan báðar með 18 stig. Jessica Tomasetti skoraði 13 stig fyrir Selfoss.

Haukar, Grindavík, Keflavík, Hamar/Þór og Ármann eru líka komin áfram í átta liða úrslitin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×