Körfubolti

Sara Rún með sigurkörfuna í ó­trú­legri endur­komu Kefla­víkur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Rún Hinriksdóttir tryggði Keflavík sæti í átta liða úrslitum bikarsins.
Sara Rún Hinriksdóttir tryggði Keflavík sæti í átta liða úrslitum bikarsins. vísir / Vilhelm

Keflavíkurkonur tryggðu sér sæti í átta liða úrslitum VÍS-bikars kvenna í körfubolta eftir dramatískan sigur á Valskonum á Hlíðarenda.

Keflavík vann leikinn 84-83 eftir að hafa skorað sex síðustu stigin í leiknum. Sigurkarfan kom tuttugu sekúndum fyrir leikslok eftir að Keflavíkurkonur stálu boltanum. Sara Rún Hinriksdóttir skoraði sigurkörfuna.

Valsliðið var 83-78 yfir þegar mínúta var eftir af leiknum en Keishana Washington skoraði þá þriggja stiga körfu og fékk víti að auki sem hún nýtti. Washington, sem átti stórleik, átti síðan stoðsendinguna á Söru í sigurkörfunni.

Keflavík var þremur stigum yfir í hálfleik, 41-38, en frábær þriðji leikhluti Valsliðsins færði þeim 59-54 forystu fyrir lokaleikhlutann. Úrslitin réðust síðan á æsispennandi lokamínútunum. Valskonur fengu lokasóknina og klikkuðu þá á tveimur skotum.

Washington endaði leikinn með 33 stig, 11 fráköst og 4 stoðsendingar en Sara Rún var með 17 stig. Thelma Dís Ágústsdóttir skoraði 11 stig.

Dagbjört Dögg Karlsdóttir var stigahæst hjá Val en hún kom með 19 stig inn af bekknum. Reshawna Stone var einnig með 19 stig og 9 stoðsendingar að auki. Sara Líf Boama skoraði 13 stig og tók 9 fráköst.

Hamar/Þór komst einnig áfram eftir 99-85 útisigur á 1. deildarliði Fjölnis. Jadakiss Guinn var með magnaða þrennu í leiknum, skoraði 30 stig, tók 10 fráköst og gaf 16 stoðsendingar. Ellen Iversen skoraði 20 stig og þær Mariana Duran og Jovana Markovic voru með 13 stig hvor. Leilani Kapinus skoraði 32 stig fyrir Fjölni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×