Handbolti

Stelpurnar okkar mættar aftur í Olís deildina

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Alfa Brá lét ferðaþreytu ekki á sig fá og skoraði 9 mörk fyrir Fram.
Alfa Brá lét ferðaþreytu ekki á sig fá og skoraði 9 mörk fyrir Fram.

Olís deild kvenna í handbolta hófst aftur í dag eftir hlé vegna heimsmeistaramótsins. Valur vann öruggan sigur gegn Stjörnunni og Fram sótti sigur gegn ÍR. Í báðum leikjum mátti finna leikmenn sem tóku þátt á HM fyrir Íslands hönd um síðustu helgi.

Valur var ekki í vandræðum með gestina úr Garðabæ og leiknum lauk með 32-22 sigri heimakvenna. Ásthildur Jóna Þórhallsdóttir fór mikinn og skoraði 11 mörk fyrir Val en á hinum endanum var Natasja Hammer öflugust, með 7 mörk fyrir Stjörnuna.

Valur er enn sem áður í efsta sæti Olís deildarinnar, nú með 8 sigra og 2 töp úr 10 leikjum.

Þrír af fjórum Þýskalandsförum Vals voru í hóp í dag, sléttri viku eftir síðasta leik Íslands á HM.

Hafdís Renötudóttir átti góðan leik í markinu og varði 10 skot, Þórey Anna Ásgeirsdóttir skoraði 4 mörk úr hægra horninu og skyttan Lovísa Thompson skaut 6 sinnum í netið. Thea Imani Sturludóttir var hins vegar utan hóps.

Fram gerði sér góða ferð í Breiðholtið og fagnaði 30-27 sigri á útivelli gegn ÍR. Landsliðskonan Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín, nýlent af HM, skoraði 9 mörk fyrir Fram. Hún deilir markadrottningartitli leiksins Ásdís Guðmundsdóttir.

Báðir leikmenn ÍR sem fóru á HM tóku þátt í leik dagsins. Matthildur Lilja Jónsdóttir skoraði 1 mark en Katrín Tinna Jensdóttir komst ekki á blað.

Nú stendur yfir sá síðasti af leikjunum þremur í Olís deild kvenna í dag. Haukar taka á móti Þór/KA á Ásvöllum og beina textalýsingu frá leiknum má finna hér fyrir neðan. Þar má einnig finna tvo leikmenn sem tóku þátt á HM fyrir Íslands hönd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×