Menning

Hvert er mest ó­þolandi orð ís­lenskunnar?

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Margir lögðu orð í belg í umræðunni um mest óþolandi orð íslenskunnar.
Margir lögðu orð í belg í umræðunni um mest óþolandi orð íslenskunnar.

Fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason stofnaði Facebook-þráð um óþolandi orð og viðbrögðin stóðu ekki á sér. Sjálfur valdi Egill orðin bókakonfekt, leikhúskonfekt og ástríðukokk en í þokkabót rigndi inn tillögum í hundruðatali. Þar mátti sjá vegferð, fjöllu, bataknús, bumbubúa og ýmislegt annað.

Egill birti síðan í ummælum þráðsins nýlega auglýsingu Þjóðleikhússins og sagði leikhúskonfektið einna verst. Það og bókakonfekt væru það sem á ensku kallaðist „smarmy“ eða smeðjulegt á íslensku.

Auglýsing Þjóðleikhússins.

Erla Björg Gunnarsdóttir, fréttastjóri Sýnar, kom konfektinu til varnar eftir að hafa komið því sjálf í umferð: „Heeey! Ég fann upp á bókakonfektinu - upplestrarkonseptinu - fyrir Forlagið þegar ég var kynningarstjóri þar fyrir rosa mörgum árum. Verð alltaf svolítið stolt að sjá það í aðdraganda jóla, þ.e. að konseptið og nafnið sé enn til. En ég meina, ef allir aðrir eru búnir að pikka upp þessa snilld þá er þetta kannski orðið örlítið þreytt.“

Hildigunnur Rúnarsdóttur var með annað konfekt í huga: „Eyrnakonfekt er verst. Ég hugsa bara um eyrnamerg.“

Aðili, fjölla og vegferð

Fréttamaðurinn fyrrverandi Jóhann Hlíðar Harðarson nefndi „aðila“ sem kandídat en svo væru „fröllur, fjölla og „gula gleðin“ viðbjóður“. Presturinn Hildur Eir Bolladóttir var honum sammála um eitt þeirra.

„Það snöggfýkur í mig þegar ég heyri orðið fjöllan, langar bara til að segja starfi mínu lausu og flytja ein í Selárdal. Bumbubúi og brúðkaupsfín eru líka orð sem þyrfti helst að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um,“ skrifaði hún.

Hildur Eir Bolladóttir hatar fjölluna.rmi.is

Björk Eiðsdóttir, fjölmiðlakona og flugfreyja, lagði orð í belg og sagði: „HITTINGUR er hræðilegt orð! Veit ekki á hvaða VEGFERÐ fólk sem það notar, er!!!“

Vegferðin þykir greinilega óþolandi og í senn sameinandi, því Helga Vala Helgadóttir lögfræðingur og Magnús Ragnarsson leikari, sem eru sitt hvorum megin á hinu pólitíska litrófi, tilnefndu það bæði.

„Kannski ekki orðið sjálft heldur meira ofnotkun orðsins vegferð í öllum mögulegum og ómögulegum tilvikum,“ sagði Helga Vala um vegferðina meðan Magnús sagði: „Öll vegeferð drepur mig.

Heilt safn af ljótum orðum

Malín Brand hafði tekið saman heilt safn yfir ljót orð. Þar mátti sjá vegablæðingar, aðgerðapakka, aðila, reynslubolta, innirödd, fröken, verðstríð, tröllríða, afþíða, blautþurrku, kjötfars, súrsætt og ökukappa.

„Síðast en ekki síst: Að „hlæja upphátt“ í stað þess að skellihlæja eða skella upp úr. Verð líka að nefna „að gyrða sig í brók“ og að eiga „skammt eftir ólifað“,“ bætti Malín við.

Urmull var af tilnefningum en þó var einn sem neitaði að taka þátt í slíku og vildi frekar nefna sín uppáhald orð.

„Læt ekkert varðandi tungutak ergja mig ... á aftur á móti alltaf uppáhalds orð. Nú er Auðmýkt í þeim sessi, verð æ mýkri gagnvart Auðnunni. ... annars gæti ég lent á næsta bæ í Auðninni,“ skrifaði Þórunn Jarla Valdimarsdóttir.

Þórunn Jarla valdi sér uppáhalds orð.visir/vilhelm

Þegar þessi frétt er skrifuð eru ummælin orðin rúmlega sex hundruð talsins. Ógjörningur er að telja til öll óþolandi orðin og orðasamböndin en hér má sjá nokkur vinsæl á þræðinum:

  • Brúðkaupsfín
  • Bataknús
  • Ömmugull
  • Stjönublaðamaður
  • Þjóðargersemi
  • Taka samtalið
  • Íslandsvinur
  • Að skapa minningar
  • Til hamingju með prinsinn/prinsessuna
  • Lasarus
  • Heyrðu!
  • Eigðu góðan dag
  • Dóttla





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.