Bíó og sjónvarp

Ná­grannar kveðja endan­lega í dag

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Ryan Moloney, Alan Fletcher, Jackie Woodburne, Angela Bishop, Ian Smith og Stefan Dennis kvöddu skjáinn 2022 og gera það aftur núna í dag.
Ryan Moloney, Alan Fletcher, Jackie Woodburne, Angela Bishop, Ian Smith og Stefan Dennis kvöddu skjáinn 2022 og gera það aftur núna í dag. Getty

Síðasti þáttur sápuóperunnar Nágranna verður sýndur í dag í Ástralíu og á Bretlandseyjum. Þátturinn er með þeim langlífari í sögunni og hefur verið sýndur síðan 1985. Amazon kom til bjargar þegar þátturinn var tekinn af dagskrá 2022 en nú er komið að endanlegri kveðjustund.

Nágrannar þekkja það að binda endi á sögur karaktera sinna, láta þá snúa aftur og jafnvel ganga frá þeim í annað sinn. Serían hefur sjálf upplifað það, var fyrst tekin stuttlega af dagskrá eftir fjögurra mánaða göngu 1985 og síðan aftur 2022. En nú hefur leikmynd seríunnar, sem staðið hefur í fjörutíu ár, verið tekin í sundur og leikarar leitað á önnur mið: Ramsay-stræti hefur sungið sitt síðasta.

„Maður finnur fyrir deja vu,“ sagði yfirframleiðandinn Jason Herbison í viðtali við BBC um tímamótin. Eftir að Channel 5 ákvað að hætta að sýna þættina endaði serían á stjörnum prýddum lokaþætti með Hollywood-stjörnunum Margot Robbie og Guy Pearce, sem slitu barnskónum í þáttunum, tónlistarkonunni Kylie Minogue og söngvaranum Jason Donovan.

Mörg hundruð manns söfnuðust saman á Federation-torgi í Melbourne til að fylgjast með endinum á stóra skjánum og BBC var með lifandi vakt vegna tímamótanna. Skömmu eftir að sá lokaþáttur fór í loftið bárust hins vegar fregnir af því að þetta væru ekki endalokin, Amazon MGM Studios tók Nágrannana upp á sína arma.

Sviptingarnar voru svo skjótar að Pearce grínaðist með að kveðjugjöfinni sem Robbie sendi á framleiðendurnar, kassa af kampavíni, yrði skilað. En endurkoman entist stutt. 

Fyrr á þessu ári tilkynnti Amazon að serían myndi enda í desember, fjörutíu árum og rúmlega níu þúsund þáttum síðar. Þátturinn verður ekki jafn stjörnum hlaðinn og síðast en mun vafalaust nísta enn dýpra.

Þátturinn verður síðan sýndur hérlendis á Sýn þann 24. febrúar næstkomandi. 


Tengdar fréttir

Nágrannar kveðja sjónvarpsskjáinn

Síðasta atriði áströlsku sjónvarpsþáttanna Nágrannar hefur verið tekið upp. Þættirnir hafa verið á sjónvarpsskjáum áhorfenda í tugi ára.

Nágrannar snúa aftur á Stöð 2 árið 2023

Þau sögulegu tíðindi urðu í gær að Nágrannar kvöddu sjónvarpsáhorfendur Stöðvar 2. Ástralska sjónvarpsþáttaröðin hefur verið á dagskrá sjónvarps í 37 ár og stefndi í að þáttaröðin myndi kveðja fyrir fullt og allt. Ekki varð af því, sem betur fer fyrir dygga aðdáendur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.