Erlent

Fjórir látnir á Tenerife eftir að alda sópaði þeim úr saltvatnslaug

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Laugin situr litlu hærra en sjávarborðið og getur því verið afar varasöm í vondu veðri.
Laugin situr litlu hærra en sjávarborðið og getur því verið afar varasöm í vondu veðri. Getty/Kristyna Sindelkova

Fjórir eru látnir og eins er saknað eftir að öflug alda sópaði fólki úr vinsælli saltvatnslaug á Tenerife á sunnudag og út á haf. Þrjú lík voru heimt úr sjónum en kona sem var bjargað lést á sjúkrahúsi í gær.

Um var að ræða tvo menn og tvær konur. Annar maðurinn var 35 ára og önnur konan 55 ára. Fólkið var frá Rúmeníu og Slóvakíu.

Samkvæmt staðarmiðlum er saltvatnslaugin, Charco de Isla Cangrejo á Los Gigantes-ströndinni, afar vinsæl meðal ferðamanna. Hún getur hins vegar verið varasöm, þar sem hún situr aðeins örlítið hærra en sjávarborðið og þannig ganga stórar öldur yfir í vondu veðri.

Veðurviðvörun var í gildi þegar atvikið átti sér stað og þá hefur einn miðill greint frá því að laugin hafi í raun verið lokuð frá 3. desember. Að sögn íbúa virðist fólkið hafa hunsað skilti og viðvaranir sem komið hafði verið upp til að koma í veg fyrir að fólk notaði laugina vegna veðurskilyrða.

Þrír létust og fimmtán slösuðust á Tenerife í nóvember síðastliðnum, þegar flóðbylgja hreif fólkið og bar það á haf út.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×