Erlent

Vöruðu við flóðbylgjum eftir stærðarinnar jarð­skjálfta

Samúel Karl Ólason skrifar
Viðvörunarkort af vef Veðurstofu Japans.
Viðvörunarkort af vef Veðurstofu Japans. JMA

Yfirvöld í Japan gáfu í dag út flóðbylgjuviðvörun víðsvegar um norðurhluta eyjanna eftir að 7,6 stiga skjálfti varð skammt undan ströndum ríkisins. Búist er við allt að þriggja metra háum flóðbylgjum og var fólki sagt að forðast strandlenguna.

Jarðskjálftinn varð á um 50 kílómetra dýpi skammt undna ströndum Aomori-héraðs í Japan. Viðvaranirnar ná til Aomori, Hokkaido og Iwate-héraða.

Jarðskjáltinn varð um klukkan 23:15 að japönskum tíma, eða upp úr klukkan tvö í dag.

Búist er við allt að þriggja metra háum flóðbylgjum á köflum en annarsstaðar hafa flóðbylgjur náð um fimmtíu sentímetrum.

Í frétt Japan Times er haft eftir ráðamönnum að verið sé að afla upplýsinga um mögulegar skemmdir og það hvort einhvern hafi sakað. Fregnir hafa borist af því að nokkrir hafi slasast lítillega.

Vitað er til þess að um níu hundruð heimili urðu rafmagnslaus vegna jarðskjálftans.

Ekki er vitað til þess að nokkrar skemmdir hafi orðið á Hagashidori-kjarnorkuverinu í Aomori, á Onagawa-kjarnorkuverinu í Miyagi eða öðrum kjarnorkuverum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×