Erlent

Ítalir lög­festa lífs­tíðar­fangelsi fyrir kvennamorð

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ofbeldi gegn konum mótmælt í Róm.
Ofbeldi gegn konum mótmælt í Róm. Getty/Corbis/Simona Granati

Ítalska þingið hefur samþykkt samhljóða að morð á konum, vegna þess að þær eru konur, verði séstaklega nefnd í refsilöggjöf landsins. Þeir sem gerast sekir um þessi brot eiga yfir höfði sér lífstíðarfangelsi.

Segja má að kvennamorð séu alvarlegasta birtingarmynd kynbundins ofbeldis en áætlað er að um 106 af 116 morðum á konum á Ítalíu í fyrra sé hægt að flokka sem kvennamorð.

Kvennamorð hafa verið nokkuð í umræðunni á Ítalíu en ákveðið var að grípa til lagasetningar í kjölfar morðsins á Giuliu Cecchettin árið 2023. Hin 22 ára Giulia var stungin til bana af Filippo Turetta, fyrrverandi kærasta sínum.

Ástæðan var sú að hún neitaði að taka aftur við honum.

Það vakti mikla athygli þegar systir Giuliu sagði Turetta ekki skrýmsli, heldur afsprengi afar karllægs samfélags.

Lagabreytingin mun meðal annars verða til þess að kvennamorð verða flokkuð sem slík og talin, sem hefur ekki alltaf verið raunin. Lögin voru samin af nefnd sem rannsakaði meðal annars 211 nýleg morð á konum til að ná utan um það hvernig ætti að skilgreina hugtakið „kvennamorð“.

Ítalía verður fjórða landið innan Evrópusambandsins til að skilgreina kvennamorð í lögum sínum en hin eru Króatía, Kýpur og Malta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×