Fótbolti

Eftir­maður Heimis Hall­gríms­sonar hættur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steve McClaren hefur stýrt fótboltalandsliði Jamaíka í síðasta skiptið.
Steve McClaren hefur stýrt fótboltalandsliði Jamaíka í síðasta skiptið. Getty/Omar Vega

Á meðan Heimir Hallgrímsson er að upplifa frábæra tíma með írska landsliðinu er ekki hægt að segja það sama um hans gömlu lærisveina í jamaíska landsliðinu og hvað þá með eftirmann hans.

Jamaíka náði ekki að vinna Curacao á heimavelli í nótt og því komst smáþjóðin á HM á kostnað þeirra.

Írar eiga enn möguleika á HM-sæti en Jamaíka er úr leik eins og íslenska landsliðið.

Curacao tók með því metið sem Heimir Hallgrímsson setti með íslenska landsliðinu á HM í Rússlandi. Ísland er því ekki lengur fámennasta þjóðin í sögu HM.

Steve McClaren tók við sem landsliðsþjálfari Jamaíka þegar Heimir hætti en eftir vonbrigðin í nótt sagði hann starfi sínu lausu.

McClaren yfirgaf síðast landsliðsþjálfarastarf fyrir átján árum eftir að hafa ekki komist á stórmót þegar England missti af sæti á EM 2008.

„Undanfarna átján mánuði hef ég gefið allt sem ég á í þetta starf,“ sagði hann. „Að leiða þetta lið hefur verið einn mesti heiður á ferli mínum,“ sagði Steve McClaren.

„En fótbolti snýst um úrslit og í kvöld náðum við ekki markmiði okkar, sem var að komast áfram úr þessum riðli. Það er á ábyrgð leiðtogans að stíga fram, axla ábyrgð og taka ákvarðanir sem eru liðinu fyrir bestu,“ sagði McClaren.

„Eftir djúpa íhugun og heiðarlegt mat á því hvar við erum stödd og hvert við þurfum að stefna, hef ég ákveðið að segja af mér sem aðalþjálfari jamaíska landsliðsins,“ sagði McClaren.

„Stundum er það besta sem leiðtogi getur gert að viðurkenna hvenær þörf er á nýrri rödd, nýrri orku og öðru sjónarhorni til að koma liðinu áfram,“ sagði McClaren.

Jamaíka lék 23 leiki undir stjórn Steve McClaren. Liðið vann ellefu þeirra, gerði sex jafntefli og tapaði sex leikjum. Markatalan var þrettán mörk í plús, 39-26, og liðið náði í 1,7 stig að meðaltali í leik.

Jamaíka lék 27 leiki undir stjórn Heimis Hallgrímssonar. Liðið vann tíu þeirra, gerði sjö jafntefli og tapaði tíu leikjum. Markatalan var jöfn, 37-37, og liðið náði í 1,4 stig að meðaltali í leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×