Viðskipti erlent

Stefna Jóni Þor­grími vegna Rauða heftarans

Samúel Karl Ólason skrifar
Jón Þorgrímur Stefánsson og Milton, úr Office Space, með rauða heftarann sinn.
Jón Þorgrímur Stefánsson og Milton, úr Office Space, með rauða heftarann sinn.

Bandaríska félagið NetApp Inc. hefur höfðað mál gegn Jóni Þorgrími Stefánssyni, fyrrverandi forstjóra fyrirtækisins á Íslandi. Hann er sakaður um að hafa stolið hugverki NetApp og notað það til að undirbúa rekstur í samkeppni við NetApp á meðan hann var enn í vinnu hjá fyrirtækinu.

Undirbúningsvinnuna mun Jón svo hafa selt til samkeppnisaðila NetApp en lögsóknin byggir meðal annars á tilvísun í kvikmyndina Office Space frá 1999.

Sú tilvísun, sem snýst um rauðan heftara, vísar til Miltons, sem komið var illa fram við í fyrirtækinu sem myndin fjallar um og endar á því að brenna það til grunna, meðal annars vegna rauðs heftara sem yfirmaður hans tók af honum.

Í frétt Forbes segir að málið hafi verið höfðað þann 6. nóvember í Flórída. Þar er því haldið fram að Jón hafi stolið hugverki frá NetApp og notað það til að verða sér úti um hátt setta stöðu í fyrirtækinu VAST Data, sem er samkeppnisaðili NetApp.

Áhugasamir geta séð kæruna hér.


Jón, sem gjarnan er kallaður Jónsi, vann hjá fyrirtækinu GreenQloud sem keypt var af NetApp árið 2017 og varð þá NetApp Iceland. Fyrirtækið mun hafa verið það fyrsta í heimi til að bjóða upp á skýjaþjónustu sem eingöngu var rekin með endurnýjanlegri orku.

Helsta áhersla fyrirtækisins var að þróa hugbúnaðarlausnir varðandi skýjalausnir og tölvuþjóna fyrirtækja.

Seldu „Red Stapler“ skömmu eftir starfslok

Í kærunni segir að í janúar á þessu ári hafi fyrrverandi starfsmaður NetApp, sem situr í stjórn VAST Data, sent öðrum fyrrverandi starfsmanni NetApp skilaboð sem í stóð: „Jónsi er til“. Skömmu síðar sendi sami aðili mynd af rauðum heftara.

Í apríl mun Jón svo hafa sent skilaboð á Eirík Svein Hrafnsson, annan yfirmann hjá NetApp á Íslandi sem var einnig einn af stofnendum Greenqloud, og spurt hvort hann ætti launaupplýsingar um fólk sem þeir hafi viljað ráða til „Red Stapler“ eða Rauða heftarans.

„Red Stapler“ er félag sem stofnað var þann 3. júlí, nokkrum dögum eftir að Jón hætti hjá NetApp. Í kærunni segir að ellefu dögum áður en hann hætti þar hafi síða á GitHub, sem hét „redstapler-is“, verið stofnuð og að það bendi til að Jón og Eríkur hafi verið að þróa hugbúnað fyrir annað félag, áður en hann hætti hjá NetApp.

Jón hætti hjá NetApp þann 27. júní og Eiríkur þann 31. ágúst en þá var hann þegar næststærsti hluthafi Red Stapler.

Svo gerðist það þann 9. september að VAST Data keypti Red Stapler fyrir ótilgreinda upphæð. Jón var ráðinn til fyrirtækisins til að leiða starfsemi fyrirtækisins varðandi skýjalausnir. Í tilkynningu um kaupin stóð að hugbúnaður sem fylgdi Red Stapler muni hjálpa VAST Data verulega.

Seldi húsið í Flórída og flutti til Íslands eftir kröfubréf

Í kæru NetApp segir að umræddur hugbúnaður sé sambærilegur þeim sem fyrirtækið hafi varið gífurlegum fjármunum og tíma í að þróa. Red Stapler hefði ómögulega getað gert það sama á um tíu vikum, án þess að nota hugverk NetApp.

Þá segir að Jón hafi á sínum tíma skrifað undir umfangsmikið samkomulag um meðhöndlun hugverka NetApp. Það feli meðal annars í sér að hann mætti ekki þróa eigin hugbúnað meðan hann starfaði hjá NetApp og að hann yrði að láta vita af öllum hugbúnaði sem hann þróaði innan hálfs árs eftir að hann hætti að vinna þar.

Í frétt Forbes segir að eftir að VAST Data keypti Red Stapler hafi NetApp sent bréf á Jón í október, þar sem kvartað var yfir því að hann hefði brotið gegn áðurnefndu samkomulagi. Jón hafi ekki svarað því, né öðru bréfi sem sent var seinna.

Þá hafi forsvarsmenn fyrirtækisins komist að því að skömmu eftir að Jón fékk fyrsta bréfið í október hafi hann sett hús sitt í Flórída á sölu og flutt til Íslands. Það hafi þótt skýr skilaboð um að hann hafi ekki ætlað að bregðast við bréfunum eða framfylgja samkomulaginu.

VAST Data svaraði ekki fyrirspurnum Forbes um lögsóknina gegn Jóni og hvort hann starfaði þar enn, eftir að tímabundið lögbann var sett á hvað hann gæti gert fyrir fyrirtækið.

Forsvarsmenn NetApp vilja koma í veg fyrir að Jón noti hugverk fyrirtækisins með frekari hætti og þeir vilja einnig bætur. Samkvæmt Forbes gæti málið reynst flókið úrlausnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×