Innlent

Fann dauðan snák í Mos­fells­bæ

Árni Sæberg skrifar
Snákurinn var um 70 sentimetrar á lengd.
Snákurinn var um 70 sentimetrar á lengd. Jóhann Þór Hopkins

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti heldur óvenjulegu verkefni í morgun eftir að vegfarandi gekk fram á dauðan snák. Svo vill til að sá sem fann snákinn hefur átt snák af sömu tegund og segir snákana góð gæludýr. Snákar eru kolólöglegir hér á landi.

Jóhann Þór Hopkins segist í samtali við Vísi hafa gengið fram á snákinn í Mosfellsbæ í morgun og þá hafi hann verið dauður. Snákurinn sé að öllum líkindum af tegund kornsnáka og hafi verið um 70 sentimetrar að lengd og því fullvaxta.

Hann hafi einmitt átt slíkan snák sem gæludýr og kunnað vel við. Kornsnákar séu með öllu hættulausir og bit þeirra valdi í versta falli rispum. Þeir séu vinsæl gæludýr, þrátt fyrir að snákar séu ólöglegir.

Hjördís Sigurbjartsdóttir, stöðvarstjóri lögreglustöðvarinnar á Vínlandsleið, staðfestir í samtali við Vísi að lögreglan hafi sinnt útkalli vegna málsins. Verkefni lögreglu nái þó ekki lengra en að hringja á meindýraeyði, sem hafi mætt á vettvang í morgun og fjarlægt hræið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×