Körfubolti

„Bara feginn að við fundum þó leið“

Arnar Skúli Atlason skrifar
Arnar Guðjónsson og hans menn þurftu að hafa fyrir hlutunum í kvöld á spennuþrungnum lokamínútum.
Arnar Guðjónsson og hans menn þurftu að hafa fyrir hlutunum í kvöld á spennuþrungnum lokamínútum. vísir/Diego

„Við erum bara fegnir að við drógum lengra stráið,“ sagði Arnar Guðjónsson, þjálfari Tindastóls, eftir 96-95 sigurinn á Íslandsmeisturum Stjörnunnar í mögnuðum leik á Sauðárkróki í kvöld, í Bónus-deild karla í körfubolta.

Tindastóll komst mest 27 stigum yfir í leiknum en Stjarnan át upp forskotið í seinni hálfleiknum og komst yfir þegar aðeins 2,2 sekúndur voru eftir.

„Þeir skrúfa upp varnarleikinn hjá sér. Skipta á skrínum. Við hægjum á okkur sóknarlega. Þeir hlaupa í bakið á okkur og skora tuttuguogeitthvað stig úr hraðaupphlaupum. Það er það sem gerðist,“ sagði Arnar í viðtali strax eftir leik.

„Sko, þeir eru góðir í körfubolta. Íslandsmeistarar í fyrra. Við vorum framúrskarandi í fyrri hálfleik og þeir ekkert sérstakir, og vice versa í seinni hálfleik. Það hefði verið mjög furðulegt ef við hefðum bætt í frá fyrri hálfleiknum. Ég er bara feginn að við fundum þó leið til að klára þetta, því þetta var komið í óefni,“ sagði Arnar.

Það var Sigtryggur Arnar Björnsson sem fékk boltann í lokin, fiskaði villu og skoraði úr báðum vítum sínum:

„Hann var einn af tveimur optionum,“ sagði Arnar um lokasóknina. En hvað fór í gegnum hugann þegar Sigtryggur Arnar var á vítalínunni?

„Í raun bara hvað ætlum við að gera varnarlega ef hann hitti úr báðum. Því ef hann hefði hitt úr öðru þá hefði verið framlenging og ef hann hefð klikkað á báðum þá hefði leikurinn verið búinn. Þetta var því það eina sem við gátum haft einhverja stjórn á,“ sagði Arnar og Stólarnir náðu svo að verjast lokasókn Stjörnunnar og fagna sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×