Handbolti

Til­kynnti um ó­léttu og nýjan samning á sama tíma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sanna Solberg-Isaksen og liðsfélagi hennar í norska landsliðinu Henny Ella Reistad.
Sanna Solberg-Isaksen og liðsfélagi hennar í norska landsliðinu Henny Ella Reistad. EPA/ROBERT GHEMENT

Norska handboltakonan Sanna Solberg-Isaksen verður ekki með norska landsliðinu á heimsmeistaramótinu í handbolta í næsta mánuði.

Solberg-Isaksen spilar með danska félaginu Esbjerg og félagið tilkynnti um barnalukku leikmannsins og nýjan samning á sama tíma.

Þessi 35 ára gamli vinstri hornamaður er að fara að eignast sitt annað barn, en hún á fyrir dótturina Mathea sem er fædd árið 2022.

Solberg-Isaksen hefur spilað nokkra leiki fyrir norska landsliðið á þessu ári og hefði að öllu eðlilegu verið í heimsmistarahópnum.

Hún hefur frá árinu 2010 spilað 231 landsleik, skorað 452 mörk og unnið ellefu verðlaun á stórmótum. Þar á meðal er Ólympíugull, tveir heimsmeistaratitlar og fjórir Evrópumeistaratitlar.

„Ég er mjög ánægð með að framlengja samninginn, svo ég hafi ekki skyndilega spilað minn síðasta leik fyrir félagið. Það tók smá tíma að komast í toppform eftir fyrstu meðgönguna, en það gekk vel. Svo lengi sem líkaminn vill það og hvatningin er til staðar, þá langar mig að spila í nokkur ár í viðbót,“ segir hin 35 ára gamla Solberg í fréttatilkynningunni.

Danska félagið sagði að hornamaðurinn hefði samið við Esbjerg um framlengingu á samningi sínum til ársins 2028.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×