Bíó og sjónvarp

Vafðist tunga um tönn þegar Bond bar á góma

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Jeff Bezos er sagður vilja fá Sydney Sweeney sem næstu Bond-stúlku. Hún er opin fyrir hugmyndinni.
Jeff Bezos er sagður vilja fá Sydney Sweeney sem næstu Bond-stúlku. Hún er opin fyrir hugmyndinni. Getty

Næsta mynd um James Bond er byrjuð í framleiðslu og Jeff Bezos, forstjóri Amazon sem er rétthafinn að spæjaranum, er sagður vilja leikkonuna Sydney Sweeney sem næstu Bond-stúlku. Sweeney vafðist tunga um tönn þegar hún var spurð út í orðróminn og sagðist mundu skemmta sér betur sem Bond sjálfur.

Sydney Sweeney braust fram á sjónarsviðið í HBO-þáttunum Euphoria (2019-22) og hefur síðan vaxið jafnt og þétt sem Hollywood-stjarna. Hún lék í fyrstu seríu af White Lotus (2021) og í hinni æðivinsælu Anyone But You (2023).

Síðustu myndir leikkonunnar hafa fengið heldur slælega viðtökur en hún er þó alltaf jafngóð að halda sér í umræðunni. Auglýsingaherferð hennar fyrir tískufyrirtækið American Eagle vakti mikla athygli í sumar. 

Um sama leyti bárust fréttir af því að Sweeney væri eftirstótt meðal karlkyns gesta í brúðkaupi Jeff Bezos og Lauren Sánchez. Það eitt og sér að Sweeney væri stödd í brúðkaupinu vakti furðu enda um þrjátíu árum yngri en þau bæði.

Skömmu seinna fékkst skýring á veru leikkonunnar í brúðkaupinu. Bezos-hjónin höfðu nefnilega fjárfest í undirfatalínu sem Sweeney vinnur að þessi misserin.

Bezos hefur greinilega heillast af Sweeney því nú berast fregnir af því að hann vildi að Sweeney yrði Bond-stúlkan í næstu mynd um spæjarann sem kemur út 2028 og verður leikstýrt af Denis Villeneuve.

Sjá einnig: Óþekkjanleg stjarna

Sweeney er að auglýsa nýjustu mynd sína, Christy um boxarann Christy Martin, þessa dagana og fór af því tilefni í viðtal til Variety. Blaðamaðurinn sem tók viðtalið lýsir því hvernig leikkonan svaraði öllum spurningum af fullri festu þar til hún var spurð hvort eitthvað væri hæft í Bond-orðrómnum.

Sydney Sweeney er byrjuð að deita Scooter Braun.Getty

„Ég get ekki [sjö sekúndna pása]. Ég veit ekki [tíu sekúndna pása]. Ef ég á að vera alveg hreinskilin þá þekki ég ekki allar Bond-sögusagnirnar. En ég hef alltaf verið mikill aðdáandi seríunnar og ég er bæði spennt og forvitin að sjá hvað þau gera,“ sagði Sweeney.

Hún var þá spurð hvort hún hefði áhuga á hlutverkinu. Sweeney velti spurningunni fyrir sér og svaraði svo hreint út.

„Það veltur á handritinu. Ég held ég myndi skemmta mér meira sem James Bond,“ sagði hún.


Tengdar fréttir

Næsti Bond undir þrítugu og þrír efstir á blaði

Nú þegar búið er að ráða Denis Villeneuve sem leikstjóra næstu James Bond-myndar er leit hafin að næsta 007. Heimildarmenn Variety segja framleiðendur vilja leikara undir þrítugu og að efstir á blaði séu Tom Holland, Jacob Elordi og Harris Dickinson.

Villeneuve leikstýrir næstu mynd um James Bond

Kanadíski leikstjórinn Denis Villeneuve mun leikstýra næstu mynd um breska spæjarann James Bond fyrir Amazon MGM Studios sem keyptu réttinn að seríunni í febrúar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.