Skoðun

Viljum við læra af sögunni eða endur­taka hana?

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir skrifar

Flóttamannasamningurinn var samþykktur í lok seinni heimsstyrjaldarinnar til að læra af mistökum mannkyns. Eftir að hafa brugðist fólki sem flúði útrýmingaráætlun nasista var ætlunin sú að þjóðir heims myndu sameinast um að taka á móti fólki sem flýr ofbeldi og ofsóknir í sínu heimaríki. Í dag eru ákveðnar þjóðir hins vegar fyrst og fremst að keppast um að gera það ekki. Og þar ætlar Ísland sko ekki að vera neinn eftirbátur.

Girðingin og hjörðin

Dyflinnarreglugerðin, hvað er nú það? Við þekkjum hana núorðið flest. Á grundvelli hennar hefur fólk verið sent þvers og kruss um Evrópu í áraraðir með miklum tilkostnaði, einna helst á landfræðilegan jaðar Evrópusambandsins. Skynsamlegast væri auðvitað að haga kerfinu þannig að það tryggi jafna dreifingu fólks sem leitar skjóls í Evrópu, stuðli að því að fólk geti náð fótfestu þar sem það lendir, í ríki þar sem það kannski talar tungumálið, þekkir til, þar sem atvinnutækifærin eru eða þar sem viðkomandi einstaklingur telur sig geta orðið hluti af samfélaginu. En reglurnar ganga ekki út á það. Þær ganga fyrst og fremst út á að það ríki sem „hleypti viðkomandi inn“ fyrir landamæri svæðisins taki „ábyrgðina“ á þeirri manneskju, eins og um sé að ræða eitthvað annað en manneskjur, einstaklinga með sjálfstæða hugsun, hæfileika og hugmyndir um framtíðina.

Það er nefnilega þannig í hinu evrópska lagakerfi, að ef þú ert flóttamaður og kemur hingað, þá áttu rétt á vernd, en í raun máttu ekki koma hingað. Gildandi reglur heimila fólki ekki að koma til Evrópu í leit að vernd.

Skyldan og valið

Þannig er regluverkið, og hefur verið til áratuga. Hinar löglegu leiðir fyrir flóttafólk að koma til Evrópu og leita skjóls eru í flestum tilfellum engar. Leiðirnar eru fyrst og fremst það sem oft er kallað „ólöglegar“. Dyflinnarreglugerðin býður ríkjum Evrópu síðan upp á að varpa ábyrgðinni hvert yfir á annað, með ákveðnum takmörkunum, ef einhver slæðist inn. Öfugt á við það sem oft er haldið á lofti, er aðildarríkjum reglugerðarinnar þó alltaf frjálst að taka til sín ábyrgð á umsókn um vernd. Það er aldrei skylda að senda einstakling til annars ríkis gegn vilja viðkomandi. Aldrei.

Meðal annars vegna þessa var áður ákvæði í íslenskum lögum þar sem sagði:

… skal þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæla annars með því.

Þetta ákvæði var afnumið af ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna. Nú er í lögum eingöngu kveðið á um skyldu okkar til endursendingar með vísan í Dyflinnarreglugerðina, sem leggur enga slíka skyldu á okkur.

Íslensk sérregla eða alþjóðleg mannúðarregla?

Stjórnvöld sögðu að ástæðan hafi verið sú að um íslenska sérreglu hafi verið að ræða sem brýnt hafi verið að afnema því hún hefði svo mikið aðdráttarafl.

Þetta stenst þó ekki skoðun.

Að öðru ótöldu standa nefnilega eftir inngangsorð og ákvæði Dyflinnarreglugerðarinnar sjálfrar, sem íslensk stjórnvöld breyta ekki upp á sitt einsdæmi.

Í inngangsorðum hennar segir:

Sérhverju aðildarríki skal heimilt að víkja frá viðmiðununum um ábyrgð, einkum af mannúðar- og samúðarástæðum, í því skyni að sameina aðstandendur, skyldmenni eða aðra sem eru tengdir fjölskylduböndum…

Í 16. gr. reglugerðarinnar segir svo:

Ef umsækjandi er, sakir meðgöngu, nýfædds barns og fleira, háður aðstoð barns síns, systkinis eða foreldris, sem er með lagalega búsetu í einu aðildarríkjanna, … skulu aðildarríkin að jafnaði halda saman eða sameina umsækjanda og viðkomandi barn, systkini eða foreldri…

Þetta stendur í Dyflinnarreglugerðinni sjálfri. Evrópskum lögum.

Blekking eða blindni?

Það var engin íslensk sérregla að heimila undantekningar frá ákvæðum Dyflinnarreglugerðarinnar á grundvelli mannúðarsjónarmiða og tengsla umsækjanda við landið. Reglan var, og er, alþjóðleg, samevrópsk og sammannleg.

Ísland stærir sig af því á alþjóðavettvangi að standa öðrum ríkjum framar í vernd mannréttinda. Ég ætla að skilja þig, lesandi góður, eftir með þá spurningu hvort það sé raunverulega ennþá staðan í dag, og kannski ekki síður hvort það verði ennþá staðan á morgun, ef við höldum áfram eftir þessum vegi.

Flóttamannasamningnum var ætlað að lögfesta lærdóm af seinni heimsstyrjöldinni og sameina þjóðir í að taka á móti fólki í neyð, en ekki í að vísa þeim á brott.

Ætlum við að læra af sögunni eða ætlum við að endurtaka hana?

Höfundur er lögmaður og varaformaður Félags talsmanna umsækjenda um alþjóðlega vernd




Skoðun

Skoðun

Komið gott!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×