Erlent

Gert að vara við sjald­gæfum fylgi­kvilla

Samúel Karl Ólason skrifar
Þyngdarstjórnunarlyfin Ozempic, Wegovy og Rybelsus njóta mikilla vinsælda.
Þyngdarstjórnunarlyfin Ozempic, Wegovy og Rybelsus njóta mikilla vinsælda. EPA/Ida Marie Odgaard

Danska lyfjafyrirtækinu Novo Nordisk hefur verið gert að bæta viðvörun um mjög sjaldgæfan fylgikvilla á pakkningar Ozempic, Wegovo og Rybelsus um að notendur þyngdarstjórnunarlyfjanna vinsælu geti misst sjónina. Það er að skipan Lyfjastofnunar Evrópu en um er að ræða sjúkdóminn NAION, sem getur leitt til mikils sjónarmissis eða algerrar blindu en það er þó mjög sjaldgæft.

Skilgreiningin „mjög sjaldgæft“ felur í sér að færri en einn af hverjum tíu þúsundum notendum gæti orðið fyrir þessum fylgikvilla.

Samkvæmt frétt BT hófst umræðan um þennan sjaldgæfa fylgikvilla í Danmörku í fyrra þegar danskur maður og læknir hans héldu því fram að hann hefði fengið NAION vegna neyslu Wegovy. Um er að ræða sjúkdóm sem dregur úr blóðflæði til sjóntauga. Í flestum tilfellum eiga áhrifin við annað augað en í mjög sjaldgæfum tilfellum bæði.

Í kjölfarið fjölgaði slíkum tilfellum og einnig í tengslum við Ozempic og Rybelsus og hefur kröfum um bætur vegna þessa fjölgað mjög í Danmörku. DR segir að í september hafi að minnsta kosti 32 einstaklingar sóst eftir bótum.

Samkvæmt lyfjastofnun Danmerkur eru fjórtán þessara krafna til komnar vegna neyslu Ozempic, sautján vegna Wegovy og ein vegna bæði Ozempic og Rybelsus.

Í sumar lögðu sérfræðingar Lyfjastofnunar Evrópu til að NAION yrði skilgreindur formlega sem mögulegur aukakvilli. Forsvarsmenn Novo Nordisk höfðu þó þvertekið fyrir að slíkt gæti verið og sögðu að þeirra eigin rannsóknir á 52 þúsund notendum lyfjanna sýndu að NAION gæti ekki verið fylgikvilli þeirra.

Fyrirtækinu hefur nú verið gert að bæta tilkynningu um þennan mögulega fylgikvilla á umbúðir lyfjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×