Körfubolti

Galdra­menn í Garða­bænum: „Ég hélt að hann væri í fimm leikja banni“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pablo Cesar Bertone byrjaði tímabilið í fimm leikja banni en var mættur strax í leik númer tvö hjá Stjörnunni.
Pablo Cesar Bertone byrjaði tímabilið í fimm leikja banni en var mættur strax í leik númer tvö hjá Stjörnunni. Vísir/Guðmundur Þórlaugarson

Margir voru örugglega hissa á að sjá Pablo Cesar Bertone í Stjörnubúningnum í Garðabænum í gærkvöldi þegar Stjarnan vann sigur á Val í æsispennandi leik í Bónus-deild karla í körfubolta. Körfuboltakvöld ræddi aðeins óvænta innkomu leikmanns sem átti að vera í löngu leikbanni.

Það munaði heldur betur um þennan 35 ára argentínska Ítala því Bertone sem kom með nítján stig inn af bekknum í þriggja stiga sigri.

Ástæðan fyrir að það kom mörgum á óvart að sjá hann inni á vellinum var að Bertone byrjaði tímabilið í fimm leikja banni vegna eftirmála oddaleiks Vals og Tindastóls vorið 2023.

Klippa: Körfuboltakvöld: Stjörnumenn létu fimm leikja bann Bertone hverfa

Stefán Árni Pálsson spurði sérfræðinga sína í upphafi Bónus Körfuboltakvölds í gær hvað hefði komið þeim á óvart í byrjun Bónusdeildar karla. Það stóð ekki á beittu svari frá Benedikt Guðmundssyni.

Hann missti bara einn leik

„Já, það er hellingur sem kemur á óvart. Það kemur til dæmis á óvart hvað margir leikmenn eru ekki komnir með leyfi og eru bara ekkert með. Það kom mér á óvart að sjá Pablo Bertone mættan í kvöld. Ég hélt hann væri í fimm leikja banni en hann missti bara einn leik,“ sagði Benedikt.

Bertone tók út þrjá leiki sem leikmaður KFG, einn leik með Stjörnunni í deildinni og einn leik með Stjörnunni í Meistarakeppninni.

„Þetta eru galdramenn í Garðabænum, þeir eru búnir að losa sig við fimm leikja bann á einu augnabliki,“ sagði Stefán Árni Pálsson en umræðunni um Bertone og leikbannið hans var ekki lokið.

Löglærðir menn í Garðabænum þekkja reglurnar

„Það eru löglærðir menn í Garðabænum sem þekkja reglurnar. Þeir fylgja bara öllu því sem hægt er. Honum er skipt yfir í KFG í tvo leiki og síðan aftur til baka aftur í Stjörnuna í einn leik og síðan aftur til baka í KFG og síðan aftur til baka í Stjörnuna. Og þá er þetta bann bara búið,“ sagði Ómar Sævarsson.

„Hágæða leikmaður og eina ástæðan fyrir að hann er ekki búinn að vera að spila hérna á Íslandi síðustu ár er klárlega út af þessu leikbanni. Íslensk lið hafa ekki viljað taka hann út en hann fer að byrja í fimm leikja banni. Stjarnan var greinilega búið að plana þetta og þeir ætluðu aldrei að láta hann sitja fyrstu fimm leikina,“ sagði Ómar.

Skil ekki hvernig þetta er vera hægt

„Stjarnan reynir eins og hún getur til að spila honum sem fyrst. Það er bara eðlilegt. Örugglega áttatíu prósent lögfræðinga á landinu búa í Garðabæ þannig að það eru örugglega hæg heimatökin,“ sagði Benedikt.

„Mér finnst bara magnað að KKÍ skuli ekki vera búið að koma í veg fyrir þetta. Ég er ekki regluverkamaður, er bara á gólfinu að þjálfa íþróttina, en ég bara skil ekki hvernig þetta er hægt. Eru svona mörg lúphól í reglunum hjá okkur?“ spurði Benedikt.

Það má horfa á umfjölluna um Bertone hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×