Fótbolti

Ungu strákarnir okkar sóttu stig til Sviss

Sindri Sverrisson skrifar
Lúkas Petersson hélt hreinu í marki Íslands í dag.
Lúkas Petersson hélt hreinu í marki Íslands í dag. Getty/alex Nicodim

Íslenska U21-landsliðið í fótbolta karla sótti stig til Sviss í dag þegar það gerði markalaust jafntefli við heimamenn, í undankeppni EM.

Fátt var um færi í leiknum en Ísland fékk þó óvænt algjört dauðafæri eftir um 18 mínútna leik. Svisslendingar áttu þá innkast á eigin vallarhelmingi en það misheppnaðist illa og fór boltinn á Benoný Breka Andrésson.

Markvörður Sviss kom á móti Benoný sem gerði það rétta í stöðunni og vippaði yfir markvörðinn en því miður fór boltinn framhjá markinu.

Sviss fékk einnig færi til að skora í leiknum en niðurstaðan varð markalaust jafntefli.

Ísland er því með tvö stig eftir þrjá leiki en Sviss með fjögur stig eftir tvo leiki. Færeyingar eru efstir í riðlinum með níu stig eftir þrjá leiki en töpuðu þó 6-0 á heimavelli gegn Frökkum í dag, í fyrsta leik Frakkanna.

Ísland mætir næst Lúxemborg á þriðjudaginn en Lúxemborg gerði 2-2 jafntefli á útivelli við Eistland í dag og er með eitt stig eftir tvo leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×