Enski boltinn

Fæddist með gat á hjartanu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katja Snoeijs sést hér með fyrirliðabandið í leik með Everton í ensku úrvalsdeildinni.
Katja Snoeijs sést hér með fyrirliðabandið í leik með Everton í ensku úrvalsdeildinni. Getty/Jess Hornby

Hollenska knattspyrnukonan Katja Snoeijs spilar nú í ensku úrvalsdeildinni en það er óhætt að segja að hún hafi byrjað lífið í miklu mótlæti.

Knattspyrnukonan hefur með hörku, ósérhlífni og dugnaði komið sér alla leið upp metorðastigann og spilar nú í einni bestu deild í heimi.

Breska ríkisútvarpið sagði frá þessari óvenjulegu æsku hennar Snoeijs.

Saga hennar er öðrum til fyrirmyndar um að allt er hægt þegar viljinn er fyrir hendi. Snoeijs fæddist nefnilega með gat á hjartanu og fór í stóra aðgerð þriggja ára gömul.

„Sem barn líkar manni ekki við sjúkrahúsheimsóknir, en það var ekki það versta. Ég mætti bara og fór í skoðun. Foreldrar mínir gerðu þetta að einhverju skemmtilegu,“ sagði hún.

Annar fótleggurinn hennar var líka sex sentímetrum lengri en hinn og hún þurfti að vera í sérstökum skóm til að jafna muninn.

Læknar komust aldrei að því hvers vegna vinstri fótleggur hennar óx hraðar en hinn, þrátt fyrir að Snoeijs hafi farið í margar læknisskoðanir.

„Þegar ég fæddist kom ég út með fæturna á undan höfðinu, svo það var frekar flókið,“ sagði Snoeijs við breska ríkisútvarpið.

Þegar hún var tólf ára gömul þá gekkst hún undir aðgerð þar sem læknar leiðréttu muninn.

„Þeir brutu vaxtarbeinin frá hnénu. Sem betur fer óx hægri fótleggurinn minn jafnt og nú er munurinn aðeins nokkrir millimetrar. Ég finn samt enn fyrir muninum!“ sagði hún.

Katja byrjaði að spila fótbolta aðeins fimm ára gömul og stóð sig vel með strákunum hjá Sporting Martinus.

Hún sló í gegn með VV Alkmaar og PSV Eindhoven í heimalandinu. Snoeijs náði að verða markahæst í deildinni tvö ár í röð með báðum þessum liðum.

Í dag er Snoeijs framherji hjá Everton og segir að áskoranirnar í æsku hafi gefið henni nýja sýn á lífið og fótboltann.

Snoeijs hefur skorað tólf mörk í 38 landsleikjum fyrir Holland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×