Enski boltinn

Rooney gagn­rýnir Mo Salah og vill færa hann til á vellinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney segir að þegar Mo Salah er ekki að skora eða búa til mörk fyrir Liverpool þá séu stórir gallar hans sýnilegri.
Wayne Rooney segir að þegar Mo Salah er ekki að skora eða búa til mörk fyrir Liverpool þá séu stórir gallar hans sýnilegri. EPA/ADAM VAUGHAN

Manchester United-goðsögnin Wayne Rooney skrifar vandræði Liverpool í vetur meðal annars á það að Mohamed Salah leggi ekki nógu mikið á sig fyrir liðið. Hann vill að Arne Slot færi hann til inn á vellinum.

Liverpool tapaði um síðustu helgi þriðja leiknum sínum í röð og í þessu 2-1 tapi á móti Chelsea átti Mohamed Salah mjög slakan leik. Salah var stórskotlegur á síðustu leiktíð en hefur verið langt frá því að fylgja þeirri frammistöðu eftir á þessu tímabili.

Salah hefur aðeins skorað eitt mark úr opnum leik í efstu deild á þessu tímabili og Rooney gaf í skyn að þegar Salah er ekki að ráða úrslitum leikja með mörkum eða stoðsendingum beinist athyglin að öðrum þáttum í leik hans.

Hann horfði bara á

„Við vitum að hann kemur ekki alltaf til baka og verst jafn mikið, en í leiknum gegn Chelsea var bakvörðurinn hans gjörsamlega tekinn í gegn og hann horfði bara á,“ sagði fyrrverandi fyrirliði Englands í nýjasta þætti The Wayne Rooney Show. Breska ríkisútvarpið segir frá.

„Hann kemur ekki til baka og hjálpar til, og leikmenn eins og [Virgil] Van Dijk og leiðtogarnir í búningsklefanum ættu að segja honum: ‚Þú þarft að hjálpa til‘. Þetta var áhyggjuefni og mér finnst hann hafa virst svolítið týndur síðustu vikuna,“ sagði Rooney.

„Þegar vel gengur og þú ert að skora mörk og vinna leiki er það frábært og liðið sættir sig við það en síðustu vikuna myndi ég efast um vinnusemi hans.“

Salah skoraði fjórða markið í 4-2 sigri Liverpool á Bournemouth í fyrstu umferðinni en eina annað mark hans í ensku úrvalsdeildinni var úr vítaspyrnu seint í leik gegn Burnley. Rooney ræddi líka aldur Salah sem er orðinn 33 ára.

Færðu hann inn á miðjuna

„Ég held að þegar maður eldist líka, hefði [Arne] Slot kannski getað litið á það og hugsað: ‚Chelsea er að gjörsigra okkur á kantinum‘. Færðu hann (Salah) inn á miðjuna og færðu [Florian] Wirtz út á kantinn og hefur samt þá vinnusemi þar og snilld Salah til að reyna að skora mörk. Bestu stjórarnir sjá þetta og aðlagast. Ég er ekki að segja að hann eigi að taka hann út úr liðinu,“ sagði Rooney.

Lentum í þessu með Ronaldo

„Við lentum í þessu með [Cristiano] Ronaldo hjá Manchester United sem sömuleiðis kom ekki til baka svo Fergie [Sir Alex Ferguson] færði hann inn á miðjuna, þannig að þú hefur enn jafnvægi í liðinu og vinnan er unnin. Hann færði hann inn á miðjuna svo hann er enn á vellinum því hann á alltaf möguleika á að skora mörk og vinna leiki,“ sagði Rooney.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×