Tónlist

„Þetta er ömur­leg fjár­hags­leg á­kvörðun“

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Vígalegur Gaukur við spilakassana um borð í eistneska skemmtiferðaskipinu Baltnesku drottningunni.
Vígalegur Gaukur við spilakassana um borð í eistneska skemmtiferðaskipinu Baltnesku drottningunni.

Rapparinn GKR frumsýnir í dag tónlistarmynband við lagið „Stælar“ sem er tekið um borð í eistnesku skemmtiferðaskipi. Hann upplifði tilgangsleysi á Íslandi, flutti til Noregs fyrir sex árum og býr þar enn. Hann semur mikið af tónlist en segist eiga það til að sitja of lengi á henni - framundan sé von á markvissari útgáfu.

Gaukur Grétuson spratt fram á sjónarsviðið fyrir níu árum undir listamannsnafninu GKR með samnefndu plötunni GKR sem innihélt meðal annars slagarana „Morgunmat“ og „Tala um“. Tveimur árum síðar kom út mixtape-ið Útrás með hinu geysivinsæla „Úff“ með Birni en síðan heyrðist lítið frá honum í smá tíma. 

Eins gott að fá ekki sósu í rauðu skyrtuna.

Gauku ákvað nefnilega að flytja til Björgvinjar árið 2019 eftir að hafa hafa hitað upp fyrir norska rappara og kynnst rappsenunni þar ytra.

„Ég var bara þunglyndur á Íslandi, mig vantaði eitthvað líf, einhverja spennu og hvatningu. Ég fann ekki nógu mikinn tilgang á Íslandi á þeim tíma. Ég hætti í fimm ára sambandi og þegar það endaði hugsaði ég að ég þyrfti að breyta til,“ segir Gaukur um flutninginn.

„Það er líka eitt það besta sem þú getur gert þegar þú ert að skapa: prófa hluti og setja sig í ,random' aðstæður. Það er ótrúlega gott fyrir sköpunarkraftinn,“ segir hann.

Gaukur hefur gefið út smáskífur með reglulegu millibili síðustu ár og gaf út sex laga stuttskífuna GKR 2 á síðasta ári. Lagið „Stælar“ kom út í dag og frumsýnir hann tónlistarmyndbandið við það hér á Vísi:

„Það gerir enginn svona myndbönd lengur“

Myndbandið var tekið upp um borð í Baltnesku drottningunni, skemmtiferðaskipi eistneska fyrirtækisins Tallink, á leið frá Stokkhólmi til Tallinn. Gaukur sendi einkaskilaboð á samskiptastjóra fyrirtækisins sem leist vel á hugmyndina. Myndbandið er metnaðarfullt og minnir frekar á verk erlendrar poppstjörnu en íslensks rappara.

„Fremst í myndbandinu stendur einmitt í smáu letri Það gerir enginn svona myndbönd lengur,“ segir Gaukur og bætir við hlæjandi: „Þetta er ömurleg fjárhagsleg ákvörðun. Þess vegna er enginn að gera þetta lengur.“

Gaukur með nokkrum kátum farþegum skemmtiferðaskipsins.

Tónlistarmyndbönd mega vissulega muna sinn fífil fegurri en Gaukur segir þau geta bætt svo miklu við tónlistina sem heild.

„Ég elska tónlistarmyndbönd yfirhöfuð. Ég var í myndlistarskólanum og hef áhuga á myndlist en hef ekkert verið að mála eða gera neitt þannig. Ég geri það á annan hátt sem gætu verið myndböndin. Ég er mjög hrifinn af því að fá persónuleika tónlistarfólks í gegnum myndböndin,“ segir hann.

Það fylgi því sjarmi að sjá þann sem samdi textann syngja til þess sem hlustar gegnum myndbandið. 

Fígúran sem Gaukur leikur í tónlistarmyndbandinu er einhvers konar geimvera.

„Maður fær meiri dýpt og ég elska svona sjónrænan heim,“ segir Gaukur.

Það sé gaman að leggja eins mikið og maður getur í alla þætti tónlistarinnar: textann, lagið og hljóðheiminn og síðan tónlistarmyndbandið og allt sem því viðkemur.

„Ég er aðdáandi metnaðar og aðdáandi þess þegar einhver reynir að gera eins vel og hann getur. Þannig mér finnst mjög gaman þegar einhver, á hvaða vettvangi sem það er, ögrar hlutunum á háu leveli,“ segir hann.

Ætlar að vera virkur á næstunni

Lagið „Stælar“ er unnið í sanstarfi við Pálma Ragnar Ásgeirsson, lagahöfund og pródusent hjá Stop Wait Go, en þeir Gaukur hafa unnið mikið saman undanfarin ár.

Einhver þarf að pússa þessi glös.

„Þetta er partur af samstarfi mínu og Pálma, sem hefur samið mörg af stærstu lögum Íslands. Ég og hann erum góðir vinir og höfum verið að gera tónlist í langan tíma en við höfum ekki gefið út það mikið af því sem við höfum gert. Þetta lag er til dæmis frá 2020, við byrjuðum á því þá,“ segir Gaukur. 

Lagið er því hluti af fyrirliggjandi hljóðheimi Gauks og Pálma. „En fyrir utan það er þetta bara singúll,“ segir hann.

Rétt eins og með þetta lag situr Gaukur lengi á lögum og lætur þau malla. „Ég ætti kannski að gefa meira frá mér og sýna hversu mikið er í raun og veru í gangi,“ hugsi hann stundum með sér.

Í gegnum tíðina hefur honum liðið eins og lögin þurfi að hafa einhverja æðri merkingu og því beðið með að gefa þau út. Á næstunni ætlar hann að skora á þá heimsmynd sína. 

„Mig langar að vera virkur og reyna að gefa eins mikið út og ég get. Ég vinn í mörgu en stundum gef ég það ekki út, það er einhver sérviska hjá mér,“ segir Gaukur.

Gaukur stillir sér upp, rauð skyrta, rauður sófi.

Hvernig aflar tónlistarmaður sér tekna ef hann situr svona lengi á lögum?

„Ég hef lifað síðustu ár á lægstu laununum. Stundum koma inn pródúksjón-gigg þar sem ég sem fyrir aðra, stundum spila ég á tónleikum, vinn á skemmtistöðum við að rukka fólk inn eða vinn sem ,artist host' á tónlistarhátíðum,“ segir hann.

Gaukur hefur tekið sér ýmis önnur gigg, unnið sem stuðningsfulltrúi með börnum í grunnskólum í Björgvin og svo vann hann í tvo mánuði sem sendill.

„Ég keyrði út pizzu og kebab í níu tíma á hverjum sunnudegi í tvo mánuði til fólks í Bergen,“ segir hann. Það hafi verið lúmskt skemmtilegt en illa borgað.

Hann hefur því sett tónlistina í fyrsta sæti, oft á kostnað tekjuöflunar. „Ég legg allt mitt í sköpunina, legg mjög hart að mér þar og er frekar góður í því,“ segir hann.

Framundan er sömuleiðis meiri sköpun og segir Gaukur von á nóg af efni. 

„Það verður stanslaust flæði af efni frá mér á næstunni,“ segir Gaukur að lokum.


Tengdar fréttir

GKR boðar endur­komu í öllum skilningi þess orðs

Rapparinn Gaukur Grétu­son, betur þekktur sem GKR, hyggst snúa aftur til landsins um helgina og troða upp á Iceland Airwa­ves tón­listar­há­tíðinni í Kola­portinu næsta föstu­dags­kvöld. Hann hyggst spila nýtt efni, lög af nýrri plötu sem er væntan­leg snemma á nýju ári.

Frum­sýning á Vísi: GKR og Nossan sleppa neikvæðninni

Rapparinn Gaukur Grétuson, betur þekktur sem GKR hefur gefið út nýtt tón­listar­mynd­band við lag sitt AHA AHA en í þetta skiptið er norski rapparinn Nossan með í för. Mynd­bandið er frum­sýnt á Vísi og má horfa á hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.