Íslenski boltinn

„Held að skipið sé siglt að maður verði kallaður í lands­liðið“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Arnþór Ari er klár í slaginn á eftir.
Arnþór Ari er klár í slaginn á eftir. Vísir/stefán

„Ég er bara mjög spenntur sko. Að fá að spila á þessum velli er mjög spennandi. Ég held að skipið sé siglt að maður verði kallaður í landsliðið einhvern tímann. Það er bara tækifæri að fá að spila á þessum velli,“ segir Arnþór Ari Atlason fyrirliði HK fyrir úrslitaleikinn gegn Keflavík á Laugardalsvelli í dag klukkan 16:15.

Sæti í Bestu-deildinni er undir.

„Vonandi fer þetta á þann veg sem við viljum og við endum í efstu deild. Mér finnst mjög gaman að taka þátt í svona úrslitakeppnisfyrirkomulagi eins og maður hefur horft á í handboltanum og körfunni í mörg ár. Auðvitað var markmiðið að fara beint upp í gegnum fyrsta sætið. En þegar það var ljóst að svo var ekki er búið að vera mjög gaman að taka þátt í þessu.“

Þessir leikir hafa undanfarin tvö ár verið frekar lokaðir, enda mikið undir. Talið er að það lið sem fari upp í efstu deild fái sjötíu milljónir inn í reksturinn við það eitt að vera í Bestu-deildinni.

„Það verður eflaust eitthvað stress en aðallega spenna,“ segir Arnþór en viðtalið má sjá í heild sinni hér að neðan.

Klippa: „Held að skipið sé siglt að maður verði kallaður í landsliðið“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×