Fótbolti

Sagði konu sinni og börnum að lesa ekki kommentin

Sindri Sverrisson skrifar
Jon Dahl Tomasson átti íslenskan langafa. Hann hlaut mikla gagnrýni eftir byrjunina á undankeppni HM í þessum mánuði.
Jon Dahl Tomasson átti íslenskan langafa. Hann hlaut mikla gagnrýni eftir byrjunina á undankeppni HM í þessum mánuði. Getty/Timothy Rogers

Daninn Jon Dahl Tomasson, hinn íslenskættaði landsliðsþjálfari Svía í fótbolta, varð fyrir barðinu á viðbjóðslegu netníði eftir tap Svía gegn Kósovó í undankeppni HM.

Tomasson fékk skiljanlega sinn skerf af gagnrýni eftir 2-0 tapið gegn Kósovó fyrir hálfum mánuði, sem setti Svía í erfiða stöðu í baráttunni um sæti á HM. Hann kveðst fagna gagnrýni en hvetur fjölskyldu sína til þess að lesa ekki það sem skrifað er í kommentakerfunum.

„Munnlegt ofbeldi er viðbjóðslegt. Ég segi alltaf konunni minni og börnum að lesa ekki kommentin,“ sagði Tomasson við SVT Sport.

Hann kjósi jafnframt sjálfur að lesa ekki ummæli en Tomasson er með opið Instagram og getur hver sem er kommentað á myndirnar hans.

Sænska knattspyrnusambandið hefur áður greint frá því að búið sé að vísa nokkrum fjölda ummæla til lögreglu, án þess þó að greina frá því gegn hverjum þau beindust.

„Við greinum ekki frá því hver fórnarlömbin eru. Þetta voru um 5-10 póstar. Grunnrannsókn er í gangi,“ sagði öryggisstjóri sambandsins í skriflegu svari til SVT Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×