Erlent

Jimmy Kimmel snýr aftur á skjáinn

Eiður Þór Árnason skrifar
Jimmy Kimmel hefur notið stuðnings hvaðan æva af eftir að þátturinn var tekinn úr loftinu.
Jimmy Kimmel hefur notið stuðnings hvaðan æva af eftir að þátturinn var tekinn úr loftinu. Skjáskot

Jimmy Kimmel mun snúa aftur á skjáinn með spjallþátt sinn Jimmy Kimmel Live á morgun, þriðjudag. Hlé var gert á framleiðslu þáttanna í síðustu viku eftir að ummæli Kimmel um viðbrögð hægri manna við morðinu á Charlie Kirk ullu usla.

Þátturinn var tekinn af skjánum í kjölfar þrýstings frá bandarískum yfirvöldum og reyndist ákvörðunin mjög umdeild. Lýstu gagnrýnendur yfir áhyggjum af því að aðgerðin kæmi til með að grafa undan málfrelsi í Bandaríkjunum. 

Þættirnir eru framleiddir af og sýndir á ABC-sjónvarpsstöðinni bandarísku sem er í eigu The Walt Disney Company. Disney hefur gefið út að Kimmel muni snúa aftur á þriðjudag en hafði áður gefið út að hlé yrði gert á þáttunum um óákveðinn tíma. 

„Síðastliðinn miðvikudag tókum við ákvörðun um að stöðva framleiðslu þáttanna til að forðast að kynda undir spennu á tilfinningaþrungnum tíma í landinu okkar,“ segir í yfirlýsingu Walt Disney Company. „Þetta er ákvörðun sem við tókum vegna þess að okkur fannst sumar athugasemdirnar vera ótímabærar og þar af leiðandi ónærgætnar. Við höfum nýtt síðustu daga til að eiga í ígrunduðum samræðum við Jimmy og eftir þessi samtöl komumst við að þeirri niðurstöðu að þátturinn myndi snúa aftur á þriðjudag.“ The Hollywood Reporter greinir frá þessu

Fréttin er í vinnslu og verður uppfærð.


Tengdar fréttir

Lofuðu Trump í Norður-Kóreustíl

Stjórnendur spjallþátta vestanhafs voru nokkuð þungir á brún vegna þess að þáttur Jimmys Kimmel var tekinn úr loftinu í vikunni en gerðu þrátt fyrir það stólpagrín að vendingunum og Donald Trump, forseta, þar sem þeir lofuðu hann í hástert, með mikilli kaldhæðni.

Segir Fallon og Meyers næsta: „Gerið þetta NBC!!!“

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, fagnaði því í nótt að forsvarsmenn Disney og sjónvarpsstöðvarinnar ABC, sem er í eigu Disney, hefðu tekið þá ákvörðun að hætta að sýna þátt Jimmy Kimmel í óákveðinn tíma, eftir að yfirmaður Fjarskiptastofnunar Bandaríkjanna (FCC), gaf til kynna að útsendingaleyfi gæti verið tekið af sjónvarpsstöðvum sem sýna þættina.

Kimmel tekinn af dagskrá: Donald Trump grafi undan lýðræðinu

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir, lögfræðingur og fyrrverandi þingmaður, og Hermann Nökkvi Gunnarsson, blaðamaður Morgunblaðsins, ræddu nýjustu vendingar vestanhafs eftir að vinsæll spjallþáttur var tekinn af dagskrá vegna ummæla þulsins um morðið á Charlie Kirk. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×