Innlent

Drógu vélar­vana togara í land

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Björg dregur Runólf í land.
Björg dregur Runólf í land. Landsbjörg

Björgunarskipið Björg á Rifi á Snæfellsnesi var kallað út í morgun vegna togara sem staddur var rétt norður af Snæfellsnesi en hafði misst vélarafl. Fór svo að togarinn var dreginn til hafnar í Grundarfirði og voru skipin komin þangað um þrjúleitið síðdegis.

Um korter í níu í morgun barst vaktstöð siglinga beiðni frá togaranum Runólfi, sem hafði misst vélarafl.

Björgunarskipið Björg lagði úr höfn tíu mínútur yfir níu í morgun og var komin að Runólfu klukkan tíu.

„Þó nokkur stærðarmunur er á þessum tveimur skipum, Björg er rétt um 15 metrar á lengd á meðan Runólfur er nánast tvöfalt lengri og talsvert þyngri. Ferð þeirra Bjargar og Runólfs gekk því rólega austur Breiðafjörð, á móti straum og NA átt en stefnan hafði verið sett á Grundarfjörð, heimahöfn Runólfs,“ segir í tilkynningu Landsbjargar.

Runólfur kom til hafnar í Grundarfirði síðdegis í dag.Landsbjörg

„Þó hægt gengi fyrst um sinn, gekk ferðin áfallalaust fyrir sig og um tuttugu mínútur yfir þrjú í eftirmiðdaginn voru skipin komin til hafnar á Grundarfirði. Þegar til hafnar kom tók við að koma Runólfi að bryggju, og að því loknu hélt Björg heim á Rif, þar sem hún er nú tilbúin í útkall.“

„Þetta var annað útkallið á Björg og áhöfn hennar á jafnmörgum dögum en í gærdag fór Björg í annað álíka verkefni, þegar lítill fiskibátur missti vélarafl þegar öxull brotnaði. Sá bátur var dreginn til hafnar á Rifi.“

Talsverður stærðarmunur er á skipunum en Runólfur er næstum tvöfalt lengri.Landsbjörg



Fleiri fréttir

Sjá meira


×