Fótbolti

Kristian skoraði og lagði upp í stór­sigri gegn fyrrum fé­lögum

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Kristian Nökkvi Hlynsson hefur spilað stórkostlega í síðustu tveimur leikjum.
Kristian Nökkvi Hlynsson hefur spilað stórkostlega í síðustu tveimur leikjum.

Kristian Nökkvi Hlynsson lagði upp fyrsta markið og skoraði annað markið í 5-1 stórsigri Twente á útivelli gegn Sparta Rotterdam, sem Kristian spilaði með á síðasta tímabili.

Kristian lagði boltann fyrir Ramiz Zerrouki eftir aðeins þrettán mínútna leik og Twente tók forystuna en fór með jafna stöðu inn í hálfleikinn eftir að Tobias Lauritzen fylgdi skoti Patricks van Aanholt eftir og skoraði.

Gestirnir frá Twente áttu hins vegar eftir að skora fjögur mörk í seinni hálfleik og þar hélt Kristian áfram að hrella fyrrum liðsfélaga sína. Eftir gott samspil tók Kristian skot við vítateigsbogann sem söng í netinu.

Bart van Rooij, Ricky van Wolfsvinkel og Naci Unuvar skoruðu svo þrjú mörk til viðbótar fyrir Twente. Kristian var tekinn af velli á 72. mínútu, þegar staðan var orðin 4-1 og sigurinn svo gott sem tryggður.

Kristian virðist fullur sjálfstrausts eftir að hafa skorað sitt fyrsta A-landsliðsmark á dögunum gegn Aserbaísjan og lagði einnig upp mark í síðasta leik.

Hann er strax orðinn lykilmaður á miðjunni hjá Twente, sem situr í 9. sæti hollensku úrvalsdeildarinnar eftir sigur kvöldsins.

Á síðasta tímabili voru tveir Nökkvar sem spiluðu hjá Sparta Rotterdam en nú er Nökkvi Þeyr Þórisson einn eftir, hann sat á varamannabekknum og kom ekki við sögu í leik dagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×