Íslenski boltinn

Kallað eftir feitri sekt og tapi en Stjarnan þarf að greiða 150 þúsund

Sindri Sverrisson skrifar
Stjörnumenn komu sér af fullum þunga í titilbaráttuna með sigri gegn Val í síðustu umferð fyrir skiptingu Bestu deildarinnar. Sekt upp á 150 þúsund skyggir tæplega á gleðina yfir því.
Stjörnumenn komu sér af fullum þunga í titilbaráttuna með sigri gegn Val í síðustu umferð fyrir skiptingu Bestu deildarinnar. Sekt upp á 150 þúsund skyggir tæplega á gleðina yfir því. vísir/Anton

Áfrýjunardómstóll KSÍ hefur nú staðfest úrskurð Aga- og úrskurðarnefndar þess efnis að knattspyrnudeild Stjörnunnar skuli greiða 150.000 krónur í sekt fyrir að hafa fyllt út leikskýrslu með röngum hætti.

KA kærði Stjörnuna eftir leik liðanna á Samsungvellinum í Garðabæ þann 31. ágúst, í Bestu deild karla, vegna meintra leikskýrslubrellna Stjörnumanna. Hallgrímur Jónasson þjálfari KA fór mikinn í viðtölum eftir leikinn, og hraunaði yfir slæma gestrisni Garðbæinga, og Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA, sagði:

„Óþolandi þegar sömu félögin komast alltaf aftur og aftur upp með óheiðarleika gagnvart skýrslugerð og KSÍ gerir ekki neitt í því. Þetta á bara að vera feit sekt á félögin sem gera þetta aftur og aftur.“

Stjörnumenn þvertóku hins vegar fyrir að hafa vísvitandi fyllt leikskýrslu ranglega út, eða skilað of seint inn á vef KSÍ.

Ljóst er að þeir brutu að þessu sinni reglur með því að fylla ranglega út upplýsingar um aðstoðarþjálfara í leiknum við KA. Ekki kemur skýrt fram í dómi Áfrýjunardómstóls hvort eða hve mikið það að skila skýrslu seint hafi haft áhrif á sektina.

Mælst er til þess í leikjahandbók KSÍ að lið skili inn réttri leikskýrslu að minnsta kosti klukkutíma fyrir hvern leik, og hún birtist svo klukkutíma fyrir leik á vef KSÍ. Hún skal svo afhent dómara eigi síðar en 45 mínútum fyrir leik. Fyrri dæmi eru um það að rangt útfyllt skýrsla frá Stjörnunni birtist á vefnum sem er svo leiðrétt áður en dómarinn fær hana, og hafa Stjörnumenn verið gagnrýndir fyrir þetta.

KA-menn fóru fram á að Stjörnunni yrði dæmt 3-0 tap og að þjálfari eða forráðamaður félagsins yrði látinn sæta viðurlögum en þeim kröfum hefur nú verið hafnað á báðum dómstigum KSÍ. Niðurstaðan er sem fyrr segir 150 þúsund króna sekt.

Dóm Áfrýjunardómstóls KSÍ má lesa hér.

Úr Handbók leikja KSÍ:

Félögum ber að fylla út leikskýrslu á innri vef KSÍ í síðasta lagi 60 mínútum fyrir leik. Þegar bæði lið hafa fyllt út leikskýrsluna er hún prentuð út, undirrituð af fulltrúum beggja félaga og afhent dómara leiksins, eigi síðar en 45 mínútum fyrir leik. Bæði félög geta fyllt út skýrsluna með góðum fyrirvara, þess vegna daginn áður. Sú skráning er aðeins aðgengileg viðkomandi félagi og birtist ekki á vef KSÍ fyrr en klukkustund fyrir skráðan leiktíma. Skýrslan er hins vegar ekki aðgengileg til útprentunar fyrr en klukkustund fyrir upphaflegan leiktíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×