Fótbolti

Yamal meiddur og þjálfarinn gagn­rýnir lands­liðið

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Hansi Flick er ekki ánægður með meðhöndlun spænska landsliðsins á Lamine Yamal.
Hansi Flick er ekki ánægður með meðhöndlun spænska landsliðsins á Lamine Yamal. Marco Mantovani/Getty Images

Lamine Yamal er meiddur og ferðaðist ekki með Barcelona til Newcastle fyrir leik liðanna á St. James‘ Park í fyrstu umferð Meistaradeildarinnar á fimmtudag.

Spænska ungstirnið missti líka af leik Barcelona um helgina, sex marka burstinu gegn Valencia.

Eftir leikinn sagði Hansi Flick að Yamal hafi verið látinn taka verkjalyf til að geta spilað landsleiki en hann skilaði samanlagt rúmum 150 mínútum og lagði upp þrjú af níu mörkum Spánar í sigrum gegn Bulgaríu og Tyrklandi.

„Þetta er synd því hann var þjáður þegar hann hitti landsliðið og æfði ekkert en tók verkjalyf til spila. Svo skora þeir meira en þrjú mörk í hvorum leik. Eftir Búlgaríuleikinn, milli leikja, æfði hann ekkert. Þetta heitir ekki að hugsa um hag leikmannsins.

Spánn er með eitt besta landslið heims, með bestu leikmenn heims í hverri stöðu. Við verðum að hugsa betur um unga leikmenn“ sagði Flick.

Mikill missir er af Yamal en hann skoraði tvö mörk og gaf tvær stoðsendingar í fyrstu þremur leikjunum í spænsku deildinni, þar sem Barcelona situr í öðru sæti með tíu stig eftir fjóra leiki.

Börsungar spiluðu mjög breyttu liði í leiknum gegn Valencia en Marcus Rashford, Roony Barghiji og Fermin Lopez fengu tækifæri í byrjunarliðinu í stað Yamal, Raphinha og Roberts Lewandowski. Þeir tveir síðarnefndu komu samt inn af bekknum og skoruðu.

Frenkie de Jong og Dani Olmo voru einnig hvíldir gegn Valencia eftir að hafa spilað landsleiki.

Allir ættu þeir þó að vera klárir í slaginn gegn Newcastle á fimmtudag, nema Yamal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×