Handbolti

Bognir en hvergi bangnir: „Ekki alltaf sól­skin og sleikjóar“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Hrannar Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar.
Hrannar Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar. Vísir/Lýður

Stjarnan þurfti að þola sérlega svekkjandi tap fyrir rúmenska liðinu Baia Mare í Evrópukeppni í handbola um helgina. Að auki meiddist fyrirliði liðsins og spilar ekki meir á tímabilinu. Þjálfari liðsins er þó bjartsýnn fyrir framhaldið.

Stjarnan hafði gert jafntefli við Baia Mare í fyrri leiknum ytra áður en þau mættust að nýju fyrir fullri höll í mikilli stemningu í Garðabæ. Síðari leiknum leik einnig með jafntefli og endaði í vítakastkeppni eftir framlengingu. Þar höfðu gestirnir betur.

„Ég er persónulega ekki alveg búinn að jafna mig. Það er gríðarlega svekkjandi að tapa þessu í vítakeppni hérna heima. Ég er bara heiðarlegur með það. Við áttum að vinna leikina bæði heima og úti. Þetta er gríðarlega svekkjandi,“ segir Hrannar Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar.

Stjörnumenn sáu því fyrir sér að spila í Evrópukeppni í vetur en sá möguleiki úti. Í ofan á lag meiddist fyrirliði liðsins, Tandri Már Konráðsson, og spilar ekki meira í vetur.

„Tandri datt út eftir fimm mínútur í Rúmeníu og einhverjir héldu að við myndum brotna. En við stóðum saman og gáfum í. Við sýndum að án Tandra erum við feikna góðir, þó við söknum hans.“

Hrannar vonast til að mótlætið þjappi hópnum saman.

„Það er alltaf eitthvað í þessum handbolta. Þetta er ekki alltaf sólskin og sleikjóar. En það sem við tökum út úr þessu einvígi á móti Baia Mare, að þetta er atvinnumannalið með mikið fjármagn, stórt lið. Þeir héldu úti að þeir myndu valta yfir okkur. Við gáfum þeim hörkuleik og spiluðum feiknarvel. Ég held við getum tekið það út úr þessu að við erum hörkugóðir og áfram með þetta,“ segir Hrannar.

Um markmiðin í vetur segir Hrannar:

„Við ætlum okkur lengra en í fyrra. Það er ekki spurning. Þó við höfum misst menn í meiðsli og svona. Við horfum bara upp á við.“

Viðtalið má sjá í spilaranum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×