Lífið

Fátt skemmti­legra en að klappa Einari á aftur­endann á al­manna­færi

Svava Marín Óskarsdóttir skrifar
Milla Ósk og Einar búa saman í Breiðholti ásamt fjórum börnum sínum á aldrinum núll til átján ára. Þau eru ósammála um hvort þeirra hafi tekið fyrsta skrefið í sambandinu, og segir Milla að þau séu bæði mjög þrjósk en á sama tíma beri mikla virðingu fyrir hvoru öðru.
Milla Ósk og Einar búa saman í Breiðholti ásamt fjórum börnum sínum á aldrinum núll til átján ára. Þau eru ósammála um hvort þeirra hafi tekið fyrsta skrefið í sambandinu, og segir Milla að þau séu bæði mjög þrjósk en á sama tíma beri mikla virðingu fyrir hvoru öðru.

„Við reynum að daðra mikið við hvort annað og hlæjum mikið saman. Mér finnst til dæmis fátt skemmtilegra en að klappa Einari á afturendann á almannafæri eins og í Ikea eða Smáralindinni. Þá verður hann alveg extra vandræðanlegur sem gleður mig mikið,“ segir Milla Ósk Magnúsdóttir, spurð hvernig hún viðhaldi neistanum í sambandinu.

Milla Ósk er yfirframleiðandi hjá ACT4 og fyrrum aðstoðarmaður ráðherra, og gift Einari Þorsteinssyni, oddvita Framsóknar í Reykjavík og fyrrum borgarstjóra. Hjónin trúlofuðu sig í sameiginlegri útskriftar- og afmælisveislu árið 2019 og giftu sig með eins dags fyrirvara árið 2020, og fögnuðu því fimm ára brúðskaupsafmæli sínu í lok sumars.

Milla og Einar eru búsett í fallegu einbýlishúsi í Breiðholti ásamt fjórum börnum. Einar á tvær stelpur úr fyrra hjónabandi sem eru tólf og átján ára, og saman eiga þau tvo drengi, Emil Magnús sem er fjögurra ára en sá yngri kom í heiminn í lok júlí. 

Milla Ósk situr fyrir svörum í viðtalsliðnum Ást er.


Hvernig kynntust þið? Við kynntumst á fréttastofu RÚV, þar sem ég var aðstoðarframleiðandi frétta, skrifta hét það í þá daga, og Einar var fréttamaður.

Hvort ykkar tók fyrsta skrefið? Við munum aldrei verða sammála um þetta, hvort okkar tók raunverulega fyrsta skrefið. Ég kannast ekkert við þetta daður sem hann sakar mig um, og öfugt. Við vorum í alvöru að rökræða þetta síðast fyrir svona tveimur vikum.

Einar og Milla Ósk voru samstarfsfélagar á fréttstofu RÚV.

Fyrsti kossinn okkar: Var ógleymanlegur.

Fyrsta stefnumótið? Við lágum í Fontana spa á Laugavatni í marga klukkutíma að spjalla um allt milli himins og jarðar. Það var þá gömlu góðu daga þar sem enn mátti afgreiða vín ofan í laugina. Fullkomið stefnumót.

Hvernig myndirðu lýsa sambandinu ykkar: Í grunninn erum við rosalega góðir vinir og berum mjög mikla virðingu fyrir hvort öðru. Við erum líka mjög lík, þannig það stundum hjálpar en líka flækist fyrir þegar við erum bæði í sama þrjóskukastinu. 

Heilt yfir eigum við yndislegt samband sem gengur mikið út á að vera nautnaseggir, hugsa um börnin okkar og Einar að stríða mér við hvert tækifæri.

Mér finnst rómantískt stefnumót vera: Ég fæ alltaf mest út úr því þegar við náum að spjalla og tengjast, hvar svo sem það er. Það gæti verið uppástríluð á veitingastað en það gæti líka verið í göngutúr í Breiðholtinu.

Uppáhalds rómantíska kvikmyndin mín er:  Moulin Rouge og Knocked up eru myndir sem ég gæti horft á aftur og aftur. En ég verð líka að nefna Notebook, þrátt fyrir að það sé ekki mín uppáhalds en eftir að hafa „Notebookað“ Einar alveg rosalega eitt árið þá er það slíkur klassíker að ég get ekki annað en nefnt það. Ef þið kannist ekki við hugtakið að Notebook-a einhvern þá er hægt að fletta því upp á google. Við getum orðað það sem svo að annað okkar var í fósturstellingu í lok myndar, og ekki var það ég. En ég nefni engin nöfn.

Uppáhalds break up ballaðan mín er: Úff.. erfitt að segja. Þetta fer algjörlega eftir því hvort maður hafi dömpað eða verið dömpað. Ef manni var dömpað þá er Adele augljós kostur með lagið Don‘t you remember og líka Bon Iver I can‘t make you love me. Ef maður var að dömpa þá Beyonce – Sorry og Frelsið er yndislegt með Nýdönsk.

Lagið okkar: Við eigum þau nokkur en Neil Young – Harvest moon er alltaf stórt í okkar lífi. Eftir að hafa þurft að hætta við tvær brúðkaupsveislur í covid giftum við okkur með eins dags fyrirvara í Hallgrímskirkju. Góðir vinir útveguðu okkur svo forsetasvítuna á Hótel Sögu fyrir brúðkaupsnóttina og út á hótelsvölunum dönsuðum við, bara tvö, fyrsta dansinn okkar sem hjón við þetta lag, um miðja júlí nótt í rigningarúða.

Eigið þið sameiginleg áhugamál?

Já sem betur fer erum við mjög samstíga í hvers kyns áhugamálum og hugðarefnum. Það eru helst stjórnmál, hvers kyns góðgæti og ferðalög.

Hvort ykkar eldar meira? Ég myndi segja að eldamennska heimilisins skiptist svona: 97 prósent Einar, tvö prósent skyndibiti, eitt prósent ég. Ekki vegna vankunáttu heldur er Einar einfaldlega masterchef lífs míns.

Haldið þið upp á sambands-og/eða brúðkaupsafmælin? Já við reynum að halda alltaf eitthvað upp á þau. Við héldum nýlega upp á fimm ára brúðkaupsafmælið okkar með einn þriggja daga gamlan dreng og annan þriggja og hálfs árs í leikskólafríi. Rómansinn var eftir því. Ég komst ekki út að kaupa blóm og kort, þannig hann fékk fallegan tölvupóst frá mér úr brjóstagjöf á meðan hann svæfði eldri drenginn.

Eruði rómantísk? Já ég held það, en oftast svona alveg óvart og mikil klisjurómantík.

Fyrsta gjöfin sem ég gaf manninum mínum: Nýtt bindi fyrir stóra beina útsendingu sem hann var að fara í.

Fyrsta gjöfin sem maðurinn minn gaf mér: Hálsmen sem er með M grafið í.

Maðurinn minn er:

Eftir að vera nýbúin að ganga í gegnum þessa meðgöngu með honum er hann einfaldlega bara kletturinn minn. Duglegasti og besti maður sem ég veit um. Það er ekkert betra en hann.

Rómantískasti staður á landinu: Sveitin hjá tengdó í Dölunum og Vestmannaeyjar.

Fyndnasta minningin af ykkur saman? Mér dettur fyrst í hug þegar Einar ætlaði að gera extra vel við okkur í Barcelona ferð fyrir nokkrum árum. Eftir langan strandardag (og tilheyrandi hungur hjá mér) tók Einar sér mjög langan tíma að finna rétta veitingastaðinn fyrir okkur á síðasta kvöldinu. Ég var hungruð og óþolinmóð og hefði þess vegna labbað inn á næsta McDonald's en Einsi vildi passa upp á gera vel við okkur. Hann bókaði á einhverjum furðulegum stað fyrir okkur og lofaði margra rétta máltíð, en gaf ekkert mikið meira upp en það. Við mætum og okkur er vísað inn í iðnaðareldhús þar sem við fáum djús í fingurbjörg, og ég drekk ekki djús. Svo er okkur vísað til sætis við stórt fundarborð með ókunnugu fólki þar sem óvænt hófst powerpoint sýning um skynfærin og matargerð. 

Hófst svo matarveislan, nema það voru bornir á borð þrettán eftirréttir sem litu út eins og aðalréttir. Ís sem leit út eins og spagettí, búðingur sem leit út eins og kjötbollur osfrv. Strax á þriðja eftirréttinum vorum við orðin vel sykruð og komin með algjört ógeð. Kannski gott að taka fram hér að hvorugt okkar er mikil eftirréttamanneskja.

Vandræðasvipurinn á Einari yfir þessu bókunarklúðri var óborganlegur. Eftir þrettán eftirrétta þrælagöngu vorum við fljót að hlaupa út á næsta veitingastað og fá okkur tapas, jamón íberikó og sórum þess eið í sangríu að borða aldrei aftur eftirrétt.

Hver væri titillinn á ævisögu ykkar?

„Í fréttum er þetta helst; hvað er í matinn?“ væri nafnið á íslensku útgáfunni, en enska útgáfan væri „That escaladed quickly!“.

Hvað gerið þið til að gera ykkur dagamun?

Einar eldar eitthvað gúrmet gott og við jafnvel fáum okkur gott vín með. Góður matur gerir góðan dag mun betri.

Lýstu manninum þínum í þremur orðum:

Fallegur, blíður og kaldhæðinn. Fullkomin blanda.

Hvar sérðu ykkur eftir tíu ár?

Jii, ég varla veit hvar við verðum í næstu viku. Vonandi bara enn ástfangin, hamingjusöm og að börnin okkar séu glöð og heilbrigð.

Hvernig viðhaldið þið neistanum?

Við reynum að daðra mikið við hvort annað og hlægjum mikið saman. Mér finnst t.d fátt skemmtilegra en að klappa Einari á afturendann á almannafæri eins og í Ikea eða Smáralindinni. Þá verður hann alveg extra vandræðanlegur sem gleður mig mikið.

Ást er ...

margskonar undur. Ást lyftir manni upp í hæstu hæðir. Ást er allt sem þarf.

Tengdar fréttir

Mun aldrei líta á ástina sem sjálfsagða

„Við kynntumst á þeim geysivinsæla skemmtistað B5 og tókum þessa hefðbundnu íslensku leið í að „deita“ ekkert, ekkert sérstaklega rómantískt, en ég sé svo sem ekki eftir neinu,“ segir Tinna Óðinsdóttir, leik- og tónlistarkona, um fyrstu kynni sín og unnusta síns, sjúkraþjálfarans Stefáns Inga Jóhannsonar, fyrir sjö árum.

„Hann var ekkert eðlilega góður í sleik“

Helgi Ómarsson, ljósmyndari og áhrifavaldur, og unnusti hans Pétur Björgvin Sveinsson markaðssérfræðingur, höfðu verið vinir í fimmtán ár þegar neistinn kviknaði á milli þeirra árið 2022. Þeir vissu strax hvað þeir vildu, og eftir árs samband bað Pétur um hönd Helga. 

„Stal tannburstanum hans snemma í sambandinu“

„Það er þessi orka og samhugur sem heldur okkur gangandi. Það eru ótrúleg forréttindi að hafa fundið einhvern sem er bæði ástin og sálufélagi minn,“ segir ferðaljósmyndarinn Ása Steinars um samband sitt og eiginmanns síns, Leo Sebastian Alsved. Saman eiga þau einn dreng og eiga von á öðrum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.