Innlent

Baðlón fær ekki að setja upp ljósa­skilti við hring­veginn

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Vök Baths er eitt af fjölmörgum baðlónum sem sprottið hafa upp á landsbyggðinni á undanförnum árum.
Vök Baths er eitt af fjölmörgum baðlónum sem sprottið hafa upp á landsbyggðinni á undanförnum árum. Jóhann K.

Byggingarfulltrúa Múlaþings var heimilt að synja fyrirtækinu Vök Baths ehf., sem rekur samnefnt baðlón, að koma upp baklýstu skilti á horni þjóðvegarins og vegarins sem leiðir að baðlóninu. 

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kvað upp úrskurð þess efnis á dögunum.

Forsaga málsins er sú að sumarið 2023 sótti Vök Baths um um byggingarleyfi til byggingarfulltrúa Múlaþings vegna skiltis á horni Austurlandsvegar og Hróarstunguvegar, en baðlónið er staðsett við Hróarstunguveg. 

Síðar um sumarið lá fyrir umsögn frá Vegagerðinni, sem er veghaldari á svæðinu, þar sem fram kom að stofnunin veitti ekki heimild fyrir áformunum. Hið fyrirhugaða skilti væri stórt og upplýst mannvirki sem yrði truflandi fyrir umferð og hefði áhrif á umferðaröryggi vegfarenda. 

Rúmu ári síðar barst byggingarfulltrúa Múlaþings önnur umsókn frá Vök þar sem fram kom að fyrirtækið hefði lagað umsóknina að athugasemdum Vegagerðarinnar, meðal annars með því að færa skiltið lengra frá gatnamótunum og taka fram að baklýsing væri á skiltinu og því ekki lýsing fram á veg.

Í janúar á þessu ári barst Múlaþingi og Vök bréf frá Vegagerðinni þar sem stofnunin segist hafna umsókn fyrirtækisins. Skiltinu væri ætlað að taka athygli vegfarenda frá umferð um gatnamót. 

Samkvæmt ákvæðum bæði vega- og umferðarlaga væri leyfi Vegagerðarinnar skilyrði fyrir leyfi fyrir uppsetningu skiltis á svæðinu. Á þeim grundvelli synjaði Múlaþing umsókn Vök Baths um uppsetningu skiltisins. 

Í málinu, sem úrskurðarnefnd umhverfis og auðlindamála tók fyrir í ágúst, báru forsvarsmenn Vök Baths fyrir sig að Múlaþing hefði enn ekki tekið sjálfstæða ákvörðun í málinu heldur einungis vísað til ákvörðunar Vegagerðarinnar. Fráleitt væri að sveitarfélagi sé óheimilt að gefa út byggingarleyfi ef umrætt mannvirki snúi að umferð. 

Þá kom fram í málsástæðum Vök Baths að umsögn Vegagerðarinnar yrði einungis skilin á þann veg að þar væri fjallað um LED skilti, en ekki vandað skilti með upphleyptum stöfum með baklýsingu, sem lýsi aldrei beint í augu vegfarenda. 

Málsrök Vök Baths héldu ekki vatni fyrir úrskurðarnefndinni. Nefndin vísaði til þess að ákvæði vega- og umferðalaga yrði að skýra svo að þó ljósaskilti sé fyrirhugað lengra í burtu frá vegi en óheimilt er vegna umferðaröryggis, megi veghaldari þrátt fyrir það synja um leyfi á byggingu mannvirkis til þess að tryggja umferðaröryggi. 

Nefndin mat það svo að leggja yrði til grundvallar umsögn Vegagerðarinnar um að hið umdeilda skilti geti dregið úr umferðaröryggi. Þar af leiðandi hafi byggingarfulltrúa Múlaþings verið rétt að synja umsókn Vök Baths um byggingarleyfi fyrir skiltinu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×