Lífið

Júlíana Sara tekur við af Ásu Ninnu í Bakaríinu

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Íslendingar þekkja Júlíönu Sara sem annan helming gríntvíeykisins Þær tvær sem voru bæði með samnefnda sketsaþætti og grínþættina Venjulegt fólk.
Íslendingar þekkja Júlíönu Sara sem annan helming gríntvíeykisins Þær tvær sem voru bæði með samnefnda sketsaþætti og grínþættina Venjulegt fólk. Hi Beauty

Júlíana Sara Gunnarsdóttir, leikkona og grínisti, mun taka við af Ásu Ninnu Pétursdóttur sem umsjónarmaður Bakarísins á Bylgjunni og stýra þáttunum ásamt Svavari Erni Svavarssyni.

Ása Ninna Pétursdóttir hefur unnið við dagskrárgerð á Bylgjunni síðustu þrjú ár og stjórnað Bakaríinu á laugardagsmorgnum en tilkynnti í lok júlí að hún myndi kveðja útvarpsstöðina í sumarlok.

Mikil eftirvænting ríkti því yfir því hver myndi taka við af Ásu og var það gert undir lok síðasta þáttar Bakarísins á laugardag.

„Við ætlum að kynna inn arftaka stólsins og mæksins, ekki af verri gerðinni og þá ætla ég að fá lag undir,“ sagði Ása Ninna og valdi lagið „Tilbrigði við fegurð“ til að spilast undir.

„Við ætlum að kynna til leiks: hún er ljóshærð, hún er falleg, hún er fyndin,“ sagði Ása svo áður en Svavar bætti við: „Júlíana Sara,“ við mikil fagnaðarlæti í stúdíóinu.

Ása og Júlíana féllust í kjölfarið í faðma áður en Ása færði sig í viðmælandastólinn og Júlíana settist í umsjónarmannssætið.

„Hvernig er tilfinningin að vera komin í annan stól?“ spurði Svavar síðan.

„Hún er bara góð,“ svaraði Ása og bætti við: „Núna get ég farið að segja svona alls konar óviðeigandi hluti, nei djók.“

Flugfreyja, grínisti og höfundur ófárra grínþátta

„Við þurfum aðeins að leyfa hlustendum að kynnast þér áður en þú byrjar fyrir haustið. Hvað ertu að brasa þessa dagana?“ spurði Ása svo arftaka sinn.

„Ég er búin að vera að fljúga í sumar hjá Icelandair,“ svaraði Júlíana. „Og ég er búin að vera að skrifa líka í sumar. Og var að skrifa spennu-drama.“

„Eitthvað sem þú mátt segja frá,“ spurði Ása.

„Ekki strax. En ég pásaði síðan aðeins það verkefni af því mér fannst svo mikið kómískt vera að gerast í fluginu, þannig ég byrjaði að skrifa aðeins meiri kómík. Þannig það eru margar hugmyndir sem koma þegar maður er í fluginu,“ sagði Júlíana.

„Nú ert þú búin að skrifa heilu þáttaraðirnar og verið líka einn af höfundum. Þarftu ekki að bjóða þig fram sem sérstakur ráðgjafi fyrir áramótaskaupið,“ spurði Svavar nýjan kollega sinn.

„Nei, mér fannst það ofboðslega gaman en ég held að það sé líka ótrúlega mikilvægt að breyta um þessa höfundahópa á hverju ári. Ég held það sé hollt að breyta til,“ sagði Júlíana.

Þau ræddu síðan um grínið og flugfreyjustarfið, Helgu Bragadóttur, framhaldið í Bakaríinu og fleira skemmtilegt sem má heyra hér í spilaranum að ofan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.