Erlent

Ekki lengur fjar­lægur mögu­leiki að hring­rás í At­lants­hafi stöðvist

Kjartan Kjartansson skrifar
Áætlað hefur verið að vetrarhiti á Íslandi gæti lækkað um allt að níu gráður að meðaltali. Miðað við það væri meðalhiti að vetri á landinu langt undir frostmarki en hann hefur verið einni til tveimur gráðum yfir frostmarki síðari ár.
Áætlað hefur verið að vetrarhiti á Íslandi gæti lækkað um allt að níu gráður að meðaltali. Miðað við það væri meðalhiti að vetri á landinu langt undir frostmarki en hann hefur verið einni til tveimur gráðum yfir frostmarki síðari ár. Vísir/Vilhelm

Hættan á því að lykilhringrás í Norður-Atlantshafi gæti stöðvast vegna loftslagsbreytingar hefur verið verulega vanmetin samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar. Allt að fjórðungslíkur gætu verið á hruni hringrásarinnar jafnvel þótt menn drægju verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Svonefnd veltihringrás Atlantshafsins (AMOC) flytur hlýjan sjó sunnan úr höfum norður á bóginn og gerir aðstæður við norðanvert Atlantshaf töluvert vistlegri en ella, þar á meðal á Íslandi. Golfstraumurinn við Íslandsstrendur er einn angi hringrásarinnar.

Vaxandi vísbendingar hafa verið undanfarin ár um að hringrásin hafi veikst vegna loftslagsbreytinga af völdum manna.

Afleiðingar þess að hringrásin stöðvaðist yrðu hörmulegar fyrir samfélög manna, ekki aðeins á norðurslóðum heldur víðar um heim. Hrun hefði í för með sér verulega kólnun við Norður-Atlantshaf en aukna hlýnun sunnar. Vetrarhiti á Íslandi gæti orðið allt að níu gráðum lægri en hann er nú.

Hrun AMOC hefur fram að þessu verið talið fremur ólíklegt. Ný rannsókn sem byggir hermilíkönum sem voru keyrð út frá ólíkum losunarsviðsmyndum bendir þó til þess að slíkt hrun geti ekki lengur talist fjarlægur möguleiki.

Sjötíu prósent keyrslanna sýndu hrun hringrásarinnar ef losun gróðurhúsalofttegunda héldi áfram að aukast. Miðlungslosun leiddi til þess að AMOC stöðvaðist í 37 prósent keyrslanna en í 25 prósent tilfella ef menn drægju verulega úr losun sinni á þessari öld.

Ennfremur bentu hermanirnar til þess að vendipunkti þar sem hrun hringrásarinnar yrði óumflýjanleg gæti verið náð strax á næstu tíu til tuttugu árunum þótt hrunið sjálft ætti sér ekki stað fyrr en fimmtíu til hundrað árum síðar.

Vendipunkti náð á næstu áratugum

Stefan Rahmstorf, þýskur hafeðlisfræðingur sem hefur verið leiðandi í rannsóknum á mögulegu hruni AMOC, segir niðurstöður hans og félaga hans sláandi.

„Vegna þess að ég var vanur að segja að líkurnar á því að AMOC hryndi vegna hnattrænnar hlýnunar væru innan við tíu prósent. Nú lítur út fyrir að þær séu frekar um tuttugu og fimm prósent jafnvel í sviðsmyndum þar sem losun er lítil og menn halda sig við Parísarsamkomulagið,“ segir Rahmstorf við breska blaðið The Guardian.

Mikil óvissa sé í niðurstöðunum en jafnvel þótt líkurnar á hruni AMOC væru tíu prósent væru þær alltof miklar vegna þess hversu alvarlegar afleiðingar þess yrðu. Rahmstorf varar við því að ef eitthvað er séu líkurnar vanmetnar þar sem ekki hafi verið tekið tillit til áhrifa bráðnunar Grænlandsjökul á hringrásina.

Tugir vísindamanna vöruðu ráðherra við hættunni í fyrra

Rahmstorf afhenti Guðlaugi Þór Þórðarsyni, þáverandi loftslagsráðherra, bréf  sem hópur vísindamanna skrifaði undir á Hringborði norðurslóða síðasta haust þar sem norrænir ráðherrar voru varaðir við hættunni af því að hringrásin stöðvaðist. Voru þeir hvattir til þess að láta meta hættuna og nota áhrif sín til þess að hraða aðgerðum í loftslagsmálum á alþjóðavettvangi. Nokkrir íslenskir fræðimenn voru á meðal þeirra sem rituðu nafn sitt við viðvörunina.

Hann sagði þá við Vísi að þekkt væri úr jarðsögunni að snöggar breytingar hefðu átt sér stað á hafstraumum sem hefðu haft gríðarleg áhrif á loftslag á norðurhveli. Stöðvaðist AMOC alveg gæti það tekið fleiri aldir fyrir hana að ná sér á strik aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×