Körfubolti

„Við erum bara að hugsa um körfu­bolta“

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Martin Hermannsson er meira en tilbúinn í mótið stóra.
Martin Hermannsson er meira en tilbúinn í mótið stóra. vísir/hulda margrét

„Það er fiðringur og þetta er frábært. Þetta er að kikka inn núna eftir mikinn aðdraganda og bið. Það er loksins komið að þessu og partíið er að byrja,“ sagði spenntur Martin Hermannsson á hóteli körfuboltalandsliðsins í Katowice í gær.

Martin verður eftir sem áður í lykilhlutverki hjá íslenska liðinu og getur augljóslega ekki beðið eftir því að byrja mótið.

Ísland hefur aldrei unnið leik á stórmóti og stendur til að breyta því í Póllandi. Martin sér tækifæri í leiknum gegn Ísrael í dag.

Klippa: Martin ætlar að njóta mótsins í botn

„Alveg klárlega. Við höfum farið vel yfir þá og teljum okkur hafa allt sem þarf til að vinna þá. Auðvitað þarf þá allt að ganga upp en við erum brattir fyrir hvern leik. Við erum Íslendingar. Það kemur ekkert annað til greina en að mæta baráttuglaðir og sjá hvert það leiðir okkur.“

Það hefur auðvitað verið mikil umræða í aðdraganda þessa leiks enda alltaf umdeilt er Ísrael spilar á stórmótum. Martin segir umræðuna ekki hafa truflað liðið.

„Ekki neitt. Við skiljum alveg af hverju fólk er með áhyggjur. Við erum hérna að upplifa okkar draum að spila á stærsta sviðinu í Evrópu. Við erum að hugsa um körfubolta og ekkert annað,“ segir Martin.

„Við ætlum að njóta þess að vera hérna og einbeita okkur að því að spila körfubolta.“

Biðin eftir fyrsta leiknum á EM hefur verið löng og hjá Martin hefur tíminn liðið hægt.

„Það er eiginlega óraunverulegt að þetta sé að byrja. Ég held að maður fái ekki gæsahúðina fyrr en leikurinn fer af stað. Það er ótrúlegt að það séu komin átta ár síðan maður stóð síðast á þessu stóra sviði. Þá hélt að maður að þetta yrði nánast daglegt brauð. Ég ætla að njóta mótsins í botn og ekki taka þessu sem sjálfsögðum hlut. Ég ætla líka að njóta þess að vera orðinn einn af gömlu köllunum í þessu liði.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×