Bíó og sjónvarp

Woody Allen aðal­númerið hjá Rússum

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Woody Allen mun koma fram á sérviðburði á hátíðinni þar sem hann ræðir um ferilinn og kvikmyndir.
Woody Allen mun koma fram á sérviðburði á hátíðinni þar sem hann ræðir um ferilinn og kvikmyndir. EPA

Leikstjórinn Woody Allen, sem hefur ekki átt upp á dekk síðastliðin ár, hefur ekki verið slaufað algjörlega því hann verður aðalnúmerið á alþjóðlegri kvikmyndaviku í Moskvu sem fer fram dagana 23. til 27. ágúst.

Þetta kemur fram í frétt netmiðilsins Moscow Times sem byggir á yfirlýsingu frá hátíðinni. 

Þar segir að von sé á rúmlega áttatíu alþjóðlegum gestum frá meira en tuttugu löndum, þar á meðal Kína, Indlandi, Tyrklandi, Sádí-Arabíu, Egyptalandi, Brasilíu, Mexíkó, Bandaríkjunum, Suður-Kóreu og Íran, á hátíðina.

Woody Allen, sem er orðinn 89 ára og hefur leikstýrt um fimmtíu myndum á rúmlega sextíu ára ferli, verður sérstakur heiðursgestur á hátíðinni en mun þó aðeins koma fram gegnum fjarfundarbúnað. Hann verður til tals í umræðupanel sem rússneski kvikmyndagerðarmaðurinn Fyodor Bondarchuk mun stýra.

Viðburðinum með Allen er lýst sem „fyrirlestrar-fundi“ þar sem rætt verður um kvikmyndir, lífið og fleira á hreinskilninslegan máta. Síðasta mynd Allen, Coup de Chance, kom út árið 2023 og var hans fimmtugasta á ferlinum.

Sjá: Lýsir því hvernig umdeilt samband við Woody Allen hófst og segir hann fórnarlamb #Metoo

Segja má að Allen hafi verið endanlega slaufað í kjölfar #MeToo-bylgjunnar árið 2017. Þremur árum fyrir það hafði Dylan Farrow, dóttir Allen og Miu Farrow, rifjað upp ásakanir í garð hans um að hann hefði misnotað hana kynferðislega þegar hún var barn.

Emir Kusturica var boðið heim til Vladímírs Pútín árið 2023.EPA

Aðrir heiðursgestir á hátíðinni eru serbíski leikstjórinn Emir Kusturica, sem hefur tvisvar unnið Gullpálmann fyrir When Father Was Away on Business (1985) og Underground (1995), og bandaríski leikarinn og bardagalistamaðurinn Mark Dacascos, sem á að baki fjörutíu ára kvikmyndaferil og lék meðal annars í John Wick 3 —Parabellum (2019).

Kusturica hefur í mörg ár verið tengdur Rússlandi, hann hlaut árið 2016 sérstaka „vinskaparorðu“ frá Vladímír Pútín Rússlandsforseta og er reglulegur gestur á opinberum viðburðum ríkisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.