Enski boltinn

Rodri og Foden klárir í slaginn

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Phil Foden og Rodri eru lykilleikmann hjá Manchester City.
Phil Foden og Rodri eru lykilleikmann hjá Manchester City. EPA/PETER POWELL

Pep Guardiola þjálfari Manchester City staðfesti á blaðamannafundi í morgun að Rodri og Phil Foden væru klárir í slaginn gegn Tottenham á morgun en þeir misstu báðir af fyrsta leik tímabilsins um síðustu helgi.

Rodri var meiddur nánast allt síðasta tímabil, meiddist svo aftur á HM félagsliða í sumar og hefur ekkert spilað síðan. Upphaflega var gert ráð fyrir því að hann yrði frá þangað til um miðjan september, eftir landsleikjahlé, en batinn hefur gengið vonum framar.

Foden meiddist á ökkla á undirbúningstímabilinu, missti af síðasta æfingaleiknum og fyrsta leik tímabilsins í ensku úrvalsdeildinni, 4-0 sigri gegn Wolves, en hefur jafnað sig að fullu.

„Rodri og Phil voru ekki valdir í hópinn síðast því þeir voru ekki í leikformi og vantaði taktinn en eru báðir tilbúnir í 90 mínútur um helgina“ sagði þjálfarinn Pep Guardiola á blaðamannafundi í dag.

Þá tók hann einnig fram að Savinho, Mateo Kovacic, Josko Gvardiol og Marcus Bettinelli væru enn frá vegna meiðsla.

City tekur á móti Tottenham klukkan hálf tólf á morgun og vill hefna fyrir stærsta tap tímabilsins í fyrra, 0-4 ósigurinn þegar Tottenham kom í heimsókn.

Leikurinn verður í beinni útsendingu á Sýn Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×