Enski boltinn

Pep Guardiola hjálpar Ten Hag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Claudio Echeverri í leik með Manchester City á móti Crystal Palace í bikarúrslitaleiknum í vor.
Claudio Echeverri í leik með Manchester City á móti Crystal Palace í bikarúrslitaleiknum í vor. EPA/TOLGA AKMEN

Bayer Leverkusen fær einn efnilegasta leikmann Manchester City á láni í vetur en knattspyrnustjórinn Pep Guardiola er að lána tvo unga leikmenn liðsins.

Argentínski framherjinn Claudio Echeverri mun eyða öllu tímabilinu hjá Leverkusen þar sem hann mun spila fyrir hollenska stjórann Erik ten Hag.

Hinn nítján ára gamli Echeverri var valinn í 31 manns landsliðshóp Argentínu á dögunum en hann hefur ekki spilað enn A-landsleik.

Það höfðu fleiri lið áhuga á því að fá strákinn á láni en City valdi Leverkusen frekar en Borussia Dortmund, Lazio og Girona.

Standi hans sig vel með Leverkusen eykur hann líkurnar á því að vera í lokahópi Argentínumanna á HM næsta sumar.

Echeverri var keyptur frá River Plate í janúar 2024 og lék sinn fyrsta leik með aðalliði City undir lok síðasta tímabils. Hann skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið á heimsmeistarakeppni félagsliða í sumar.

Erik ten Hag er nýtekinn við Leverkusen en liðið hefur misst fjölda lykilmanna í sumar og þarf því svo sannarlega á liðstyrk að halda.

City hefur einnig lánað Norðmanninn efnilega Sverre Nypan til Middlesbrough í ensku b-deildinni. Hann er bara átján ára gamall en kom til City frá Rosenborg í sumar þar sem hann hefur lengi spilað stórt hlutverk þrátt fyrir ungan aldur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×