Enski boltinn

Há­kon Rafn gæti fengið sénsinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hákon Rafn í öðrum af leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.
Hákon Rafn í öðrum af leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð. John Walton/Getty Images

Markvörðurinn Hákon Rafn Valdimarsson gæti staðið vaktina í marki Brentford þegar enska úrvalsdeildin í fótbolta fer af stað um næstu helgi.

Eftir að taka þátt í tveimur leikjum í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð, og aðeins fimm allt í allt, gæti farið svo að íslenski landsliðsmarkvörðurinn Hákon Rafn muni byrja inn á þegar komandi tímabil fer af stað.

Mark Flekken, aðalmarkvörður Brentford á síðustu leiktíð, var fyrr í sumar seldur til Bayer Leverkusen. Í hans stað kom varaskeifan Caoimhin Kelleher frá Liverpool. Eftir að landsliðsmarkverðir Íslands og Írlands höfðu deilt mínútum bróðurlega á milli sín í fyrsta leik Brentford á undirbúningstímabilinu þá lék hinn 26 ára gamli Kelleher leikinn þar á eftir frá upphafi til enda. 

Í 2-2 jafntefli við þýska liðið Borussia Mönchengladbach var það hins vegar Hákon Rafn sem stóð vaktina frá upphafi til enda. Kelleher var ekki í leikmannahópi Brentford þann daginn þar sem hann hafði meiðst á æfingu.

Þó svo að Brentford haldi í vonina að Kelleher verði klár gegn Nottingham Forest á sunnudaginn kemur þá gæti farið svo að Hákon Rafn spili þann leik nái sá írski sér ekki í tæka tíð. 

Það verður þó ekki sagt að Hákon Rafn hafi gripið gæsina. Gestirnir frá Þýskalandi áttu tvö skot í leiknum á markið og bæði enduðu í netinu. Þeir sköpuðu sér jafnframt aðeins færi upp á 1.38 xG. Tölfræðisíðan Flashscore gaf honum 5.9 í einkunn. Á Sofascore fékk Hákon Rafn 6.1 í einkunn fyrir frammistöðu sína.

Hákon Rafn hefur spilað 20 A-landsleiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×